Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að hann sé búinn að ganga úr meirihluta þeirra stjórna í fyrirtækjum og eignarhaldsfélögum sem hann sat áður í. „Ég fór bara í þann feril strax, annað hvort að fá aðra inn í þær stjórnir eða að hafa engan. Þá eru bara aðrir sem taka við stjórnuninni. Ég geri það sem ég lofa. Og stend við þetta.“
Samkvæmt umfjöllun Stundarinnar í janúar síðastliðnum var Eyþór stjórnarmaður í 26 fyrirtækjum eða félögum þegar hann ákvað að bjóða sig fram í leiðtogaprófkjöri Sjálfstæðismanna, sem hann svo sigraði með nokkrum yfirburðum. Í yfirliti hjá Creditinfo sést að hann er nú skráður í stjórn eða sem framkvæmdastjóri sjö félaga.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í viðtali við Eyþór í sjónvarpsþætti Kjarnans á Hringbraut í kvöld. Þátturinn verður frumsýndur klukkan 21 í kvöld.
Síminn opinn ef einhver vill kaupa í Morgunblaðinu
Sú eign Eyþórs sem mest hefur verið rætt um í þessu sambandi er eignarhlutur hans í útgáfufélagi Morgunblaðsins, en félag Eyþórs er stærsti einstaki eigandi Árvakurs með 22,87 prósenta eignarhlut.
Eyþór segir í þætti kvöldsins að hann sé farinn úr stjórn Árvakurs og hafi ekki sett neinn mann í staðinn fyrir sig þangað inn. „ Ég hef engin afskipti af Morgunblaðinu í dag. Ef þú veist um kaupanda þá er síminn opinn.“