Íbúðaleigufélagið Heimavellir hefur lokið endurfjármögnun að andvirði þriggja milljarða króna við bandarískan fjárfestingasjóð fyrir milligöngu Fossa markaða. Þá hefur bandaríski fjárfestingasjóðurinn jafnframt keypt hlutabréf í Heimavöllum fyrir um 300 milljónir króna.
Í byrjun maí hefst almennt útboð á nýju hlutafé í félaginu sem í kjölfarið verða tekin til viðskipta í Kauphöll Íslands. Skráningarlýsing vegna hlutafjárútboðsins hefur þegar verið birt og þessa dagana fara fram kynningar með fjárfestum.
Í yfirlýsingu er haft eftir Guðbrandi Sigurðssyni framkvæmdastjóra að það að erlendir aðilar séu tilbúnir að fjármagna félagið yfir lengri tíma og koma inn sem hluthafar sýni traust á starfsemi félagsins. „Markmiðið er að Heimavellir, sem er stærsta leigufélag sinnar tegundar á Íslandi, sé í dreifðri eignaraðild og jafnframt góð viðbót í hóp skráðra félaga í Kauphöll Íslands sem gefi fjárfestum kost á frekari áhættudreifingu í eignasöfnum sínum.“