Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu og frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, beitti sér fyrir því að ungur maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn. Þetta kemur fram í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar í morgun.
Segir jafnframt að Bragi hafi hann átt ítrekuð samskipti við föður mannsins sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra var upplýstur um málsatvik, samkvæmt heimildum Stundarinnar, og afskipti Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli á fundi í ráðuneytinu í lok janúar 2018.
Formaður velferðarnefndar boðar ráðherra á opinn fund
Í nótt boðaði Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis og þingmaður Pírata, félags- og jafnréttismálaráðherra á opinn fund í velferðarnefnd næstkomandi mánudag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Halldóru í dag.
„Við lestur Stundarinnar fæ ég ekki séð betur en Ásmundur Einar hafi sagt ósatt í þingsal Alþingis 26. febrúar þegar ég spurði hann út í ásakanir á hendur forstjóra Barnaverndarstofu. Þar sagði hann orðrétt „Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafa ekki brotið af sér með neinum hætti". En samkvæmt fréttum Stundarinnar hafði hann fulla vitneskju um þetta mál og afskipti Braga Guðbrandssonar af því.
Í stað þess að láta Braga sæta ábyrgð á gjörðum sínum er honum verðlaunað með stuðningi ríkisstjórnarinnar við framboð hans til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna,“ segir Halldóra.
Ekki tilefni til áminningar
Kjarninn hefur enn ekki náð tali af forsvarsmönnum ríkisstjórnarinnar til að fá staðfestingu á því hvað var nákvæmlega rætt á ríkisstjórnarfundi þann 23. febrúar síðastliðinn þegar Bragi var útnefndur sem frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur Einar er staddur erlendis en Sóley Ragnarsdóttir, aðstoðarmaður hans, segir í samtali við Kjarnann að upplýsingar um barnaverndarmálin sjálf hafi ekki verið til umræðu á fyrrnefndum fundi.
Aftur á móti hafi verið farið yfir það á ríkisstjórnarfundinum að mál hafi verið til meðferðar hjá ráðuneytinu sem vörðuðu kvartanir þriggja barnaverndarnefnda á hendur Braga og að þeim hefði lokið með þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið tilefni til áminningar og að hann hafi ekki brotið af sér í starfi.
Staða Braga var talin sterk
Ríkisstjórnin samþykkti eins og fyrr segir að sækjast eftir sæti fyrir Íslands hönd í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna. Bragi Guðbrandsson forstjóri Barnaverndarstofu verður í kjöri til nefndarinnar en í henni sitja 18 sérfræðingar og hafa þeir það hlutverk að fylgjast með framkvæmd Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna.
Ásmundur Einar veitti Braga leyfi til eins árs frá embætti forstjóra Barnaverndarstofu en nái Bragi kjöri lætur hann af embætti sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu þar sem áhersla er lögð á að nefndarmenn séu óháðir barnverndaryfirvöldum í einstökum ríkjum SÞ.
Staða Braga var sem frambjóðanda Íslands var talin sterk og sagði í tilkynningu frá ráðuneytinu þann 23. febrúar síðastliðinn „vegna áratuga reynslu hans af málaflokknum og þátttöku í alþjóðlegu samstarfi á þessu sviði.“