Gistinætur seldar í gegnum Airbnb og aðrar sambærilegar síður voru 1,9 milljónir á árinu 2017. Þetta kemur fram í nýrri frétt Hagstofunnar. Þessar tölur stangast á við þær tölur sem Íslandsbanki gaf út í skýrslu sinni um ferðaþjónustuna fyrr í mánuðinum. Í skýrslu Íslandsbanka kemur fram að gistinætur seldar í gegnum Airbnb hafi verið 2,3 milljónir.
Bæði Hagstofan og Íslandsbanki segja að munurinn felist í aðferðafræði. Í frétt Hagstofunnar sem birtist í morgun er áreiðanleiki gagna sem vefskröpunarfyrirtækið AirDNA aflar gagnrýndur. Íslandsbanki notaði gögn Hagstofunnar, Mælaborð ferðaþjónustunnar og Samskipta og greiningar í skýrslu sinni. Mælaborð ferðaþjónustunnar notar gögn frá AirDNA.
„Á Mælaborði ferðaþjónustunnar eru birt gögn um veltu Airbnb sem byggjast á gögnum frá vefskröpunarfyrirtækinu AirDNA. Þar segir að tekjur gististaða af sölu í gegnum Airbnb hafi verið 19,4 milljarðar árið 2017 og 9,3 milljarðar árið 2016. Þessi þróun er ekki í samræmi við gögn úr virðisaukaskattskilum sem eru að mati Hagstofunnar áreiðanlegustu upplýsingar um veltu þeirra íslensku gististaða sem selja gistingu í gegnum Airbnb.“ segir í frétt Hagstofunnar.
Hagstofan styðst við gögn úr landamærarannsókn meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hagstofan vigtar svo svörin út frá þjóðerni og til hliðsjónar er haft hvernig gistingu ferðamaðurinn gisti í og hversu margar nætur hann gisti.
Samkvæmt Hagstofunni voru tekjur þeirra sem sem leigja út húsnæði sitt á Airbnb og sambærilegum síðum samanlagt 14,7 milljarðar árið 2017. Það er 25 prósent aukning frá árinu 2016 þegar þær voru 11,8 milljarðar. Í skýrslu Íslandsbanka kemur fram að tekjur leigusala af Airbnb húsnæði hafi verið 19,4 milljarðar á árinu 2017 sem er 109 prósenta aukning frá árinu 2016. Árið 2016 námu tekjur leigusala í gegnum Airbnb 9,3 milljörðum.
Íslandsbanka og Hagstofunni greinir einnig á um hlutdeild Airbnb á gistiþjónustumarkaðnum en í skýrslu Íslandsbanka er hún 28 prósent. Hjá Hagstofunni er gert ráð fyrir 19 prósent hlutdeild húsnæðis leigt út í gegnum Airbnb.