Þingflokkur Pírata krefst þess að ríkisstjórn Íslands setji nú réttindi barna í algjöran forgang og sýni bæði frumkvæði sjálf og veiti einnig Alþingi og öðrum eftirlitsaðilum stuðning við að upplýsa mál Braga Guðbrandssonar í starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu að fullu og án tafa.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá flokknum seinni partinn í dag.
„Samkvæmt fréttaflutningi Stundarinnar sem birtist í morgun hafa ráðherrar ríkisstjórnar Íslands hylmt yfir í öðru máli tengdu barnaníði.
Ef þær fréttir sem birtust í morgun reynist réttar hefur Bragi Guðbrandsson í starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu beitt sér í trássi við lög, til að þvinga Barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar, sem hafði forræði á viðkomandi máli, til að verða að kröfum kunningja síns, föður hins grunaða.
Slíkt framferði er ámælisvert og munu þingmenn Pírata beita sér fyrir áframhaldandi rannsókn á því hvort Bragi Guðbrandsson hafi framið lögbrot með aðgerðum sínum. Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hóf frumkvæðisrannsókn á málinu í janúar og hefur velferðarnefnd Alþingis fengið gögn málsins,“ segir í tilkynningunni.
Segir enn fremur í tilkynningu Pírata að fullyrt sé að þrátt fyrir ítrekaðar kvartanir barnaverndarnefnda til félags- og jafnréttismálaráðherra og í kjölfar rannsóknar ráðuneytisins, hafi Ásmundur Einar Daðason ekkert aðhafst.
Í stað þess hafi hann sagt ósatt í pontu Alþingis þann 26. febrúar síðastliðinn þegar hann svaraði fyrirspurn Halldóru Mogensen, formanns velferðarnefndar, á þá leið að „Barnaverndarstofa eða forstjóri hennar hafi ekki brotið af sér með neinum hætti.“