Viðar Þorsteinsson, sem hefur verið áberandi í umræðum um aðstæður verkafólks, hefur hafið störf sem framkvæmdastjóri Eflingar, þar sem hann mun starfa undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur nýkjörins formanns.
Þetta kemur fram í færslu á facebook-síðu hans í dag.
Hann þakkar henni jafnframt traustið og segist hann hlakka til þess að takast á við þetta mikla verkefni. Viðar hefur unnið við kennslu og rannsóknir, sem og við verkefnisstjórnun og blaðamennsku. Hann er með B.A.- og M.A.-próf í heimspeki, auk doktorsprófs í hugvísindum frá Ohio State University.
Sólveig Anna sigraði með miklum yfirburðum í kjöri til formanns Eflingar þann 7. mars síðastliðinn. Hún tók við af Sigurði Bessasyni, fyrrverandi formanni, á aðalfundi félagsins í gær.
Sólveig Anna hefur talað fyrir því að verkalýðshreyfingin taki róttækum breytingum, og að fólkið á gólfinu, sem lægstu launin hafi, fái meira vægi í baráttu hennar, auk þess sem breytt verði um stefnu þegar komið að lífeyris- og húsnæðismálum.
Þeir sem voru með Sólveigu Önnu á lista og tóku sæti í stjórn Eflingar eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrif, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.
Í dag hóf ég störf sem framkvæmdastjóri Eflingar, þar sem ég mun starfa undir forystu Sólveigar Önnu Jónsdóttur...
Posted by Vidar Thorsteinsson on Friday, April 27, 2018