Ákveðið hefur verið að halda fund velferðarnefndar Alþingis næstkomandi mánudag sem Halldóra Mogensen, formaður nefndarinnar og þingmaður Pírata, boðaði í gær. Í fréttum í dag kom fram að Ásmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefði afboðað sig á fundinn.
Arnar Þór Sævarsson, aðstoðarmaður Ásmundar Einars, segir í samtali við Kjarnann að um misskilning hafi verið að ræða og að staðið hafi til að fara til Ísafjarðar að taka á móti flóttafólki á mánudaginn og því hafi beiðni komið frá ráðuneytinu að fresta fundi fram á miðvikudag.
Halldóra staðfestir í samtali við Kjarnann að fundurinn verði nú haldinn á mánudaginn, eins og til stóð frá því hann var boðaður. Hún segir að ráðherra sé fús til að mæta á fundinn á mánudagsmorgun næstkomandi og segir hún einnig að um misskilning hafi verið að ræða.
Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi forstjóri Barnaverndarstofu og frambjóðandi Íslands til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna, beitti sér fyrir því að maður fengi að umgangast dætur sínar sem hann var grunaður um kynferðisbrot gegn. Þetta kom fram í ítarlegri umfjöllun Stundarinnar í gær.
Segir jafnframt að Bragi hafi hann átt ítrekuð samskipti við föður mannsins sem er málkunnugur Braga frá því þeir störfuðu báðir við barnaverndarmál.
Ásmundur Einar var upplýstur um málsatvik, samkvæmt heimildum Stundarinnar, og afskipti Braga Guðbrandssonar af umræddu barnaverndarmáli á fundi í ráðuneytinu í lok janúar 2018.