Manfred von Richthofen fæddist 2. maí 1892, sonur hefðarhjónanna Kunigunde og Albrecht von Richthofen. Hann var elstur þriggja sona, bræður hans voru Lothar og Karl. Lothar von Richthofen varð einnig flughetja, þótt hann næði aldrei sömu hæðum og elsti bróðirinn. Þótt Lothar lifði fyrri heimsstyrjöldina af þá urðu það örlög hans, eins og Manfreds, að láta lífið í flugvél árið 1922. Fjölskyldan var nokkuð dæmigerð prússnesk aristókratafjölskylda, svokallaðir Júnkerar.
Það var sjálfur Friðrik mikli sem hafði sæmt fjölskylduna riddaratign svo að hún hafði leyfi til að setja sæmdartitilinn Freiherr fyrir framan nafn sitt. Albrecht von Richthofen ákvað fljótlega að elsti sonur hans ætti að verða hermaður. Aðeins 11 ára að aldri var Manfred sendur í herskólann í Wahlstatt. Þar ríkti járnagi og Manfred líkaði það svo illa að hann varaði Lothar, bróður sinn, eindregið við því að verða hermaður. Þrátt fyrir að líka illa í skólanum þá stóð Manfred sig vel og það var þar sem hann þróaði með sér ýmsa hæfileika sem áttu eftir að nýtast vel seinna meir. Hann varð meðal annars afburðagóður í fimleikum og öllu líkamlegu atgervi. Hann reyndist einnig hafa gott lag á hestum og varð skjótt góður knapi. Þó er eitt sem stendur öðru framar: Manfred varð meistaraskytta.
Liðsforingi
Er fyrri heimsstyrjöldin skall á árið 1914 var Manfred þegar orðinn liðsforingi í riddaraliðinu. Það varð þó fljótt ljóst á vesturvígstöðvunum að tími riddaraliðsins var liðinn. Þeir sáu aðallega um að koma skilaboðum á milli og Manfred leiddist afar mikið á vígstöðvunum. Á þessum tíma var flug tiltölulega nýtt fyrirbrigði og margir töldu að það ætti sér litla framtíð í hernaði. Seinna viðurkenndi Manfred að hann hefði í raun ekki vitað neitt um flug á þessum tíma en hann sá litla framtíð í því að vera í riddaraliðinu. Flugið virtist eitthvað nýtt og spennandi og Manfred sló til, bað um lausn frá riddaraliðinu og sótti um í flughernum.
Í maí 1915 var Manfred því skólaður í öllu er sneri að flugi nema þó einu: Að stjórna vélinni. Í þá daga var aðalhlutverk flugvélanna að fljúga yfir vígstöðvarnar og taka myndir af hersveitum óvinarins, ekki síst staðsetningu stórskotaliðs. Flugvélarnar voru tveggja sæta könnunarvélar og sá sem var hærra settur var vanalega í hlutverki ljósmyndarans og átti að segja flugmanninum til. Manfred var liðsforingi og því sjálfvalinn í það hlutverk.
Fyrsta flugferðin gekk ekki sem skyldi. Er hreyfilinn fór í gang fuku öll blöð og kort Manfreds út í veður og vind og jafnvel hjálmurinn losnaði af honum og hvarf að eilífu. Hann uppgötvaði að hann hafði hneppt jakkanum vitlaust og vindurinn smaug inn um gatið. Auk þess heyrði flugmaðurinn ekki orð af því sem Manfred reyndi að kalla til hans. Þrátt fyrir þessi óþægindi var Manfred strax heillaður af þessari nýju veröld sem hann var þarna kynntur fyrir: „Eftir nokkra stund taldi ég í mig kjark til að líta niður. Ég sá Köln í fjarska. Dómkirkjan leit út eins og eitthvað leikfang. Allt var svo smátt og fjarlægt. Ég var gripinn þeirri tilfinningu að ég væri alveg ósnertanlegur hér uppi í skýjunum. Ég naut þess til hins ýtrasta og varð afar leiður er flugmaðurinn sagði tímabært að snúa við og lenda.“
Flughernaður eflist
Þróunin í flughernaði var hröð. Könnunarvélin hafði sannað sig og öllum var ljóst að það yrði að finna aðferðir til að ráða niðurlögum hennar. Loftvarnabyssur voru ekki nógu nákvæmar. Á þessum tíma fæddist hugmyndin að flugvél sem væri sérhönnuð til að elta aðrar flugvélar og skjóta þær niður: Orrustuvél. Vandamálið var hvar ætti að staðsetja vélbyssur á slíka vél. Best væri að hún væri beint fyrir framan flugmanninn en þá þyrftu kúlurnar að komast í gegnum hreyfilinn. Tæknimenn ýmissa herja höfðu gert tilraunir og komist að því að þótt hreyfilinn skemmdist alvarlega þá fóru langflestar kúlurnar á milli blaðanna. Bæði Frakkar og Þjóðverjar höfðu í stríðsbyrjun reynt að hanna búnað sem gerði vélbyssunni kleyft að skjóta án þess að hitta hreyfil flugvélarinnar. Það voru Þjóðverjar sem voru fljótari til er þeir settu á markað Fokker Eindecker vélina, um mitt ár 1915, sem var með eina vélbyssu og áðurnefndan búnað. Eindecker vélin olli strax miklu uppnámi meðal Breta og Frakka sem flýttu sér að framleiða svipaðar vélar. Manfred von Richthofen fylgdist með öllu þessu og var staðráðinn í að læra að fljúga og verða orrustuflugmaður. Maðurinn sem Manfred leit upp til í þessu sambandi var Oswald Boelcke. Boelcke var rísandi stjarna meðal þýskra orrustuflugmanna og er í raun litlu minni goðsögn en Manfred sjálfur átti eftir að verða. Boelcke er af flestum talinn vera sá sem fyrstur setti niður skýrar reglur fyrir orrustuflugmenn, sem kallaðar er Dicta Boelcke, og margt af því sem hann skrifaði um hertækni í háloftunum er enn þá kennt og notað, jafnvel í orrustuþotum nútímans. Boelcke benti m.a. á mikilvægi þess að reyna alltaf að gera árás með sólina á bak við sig, einnig lagði hann ríka áherslu á að flugmenn sem væru komnir yfir óvinasvæði þyrftu alltaf að vera með ákveðna undankomuleið og ef óvinur ræðst að þig að ofan áttu ekki að reyna að koma þér undan heldur snúa vél þinni beint að honum. Þetta urðu fyrstu grunnreglur þýska flughersins og Manfred von Richthofen fór eftir þeim, allt fram til örlagadagsins 21. apríl 1918.
Stóra tækifærið kemur
Það var ekki fyrr en í ágúst 1916 sem von Richthofen fékk sitt stóra tækifæri. Boelcke sjálfur hafði samband við hann og bauð honum að ganga í flugsveit sína Jagdstaffeln 2. Richthofen brást ekki meistara sínum og sigrar hans í loftinu urðu fleiri og fleiri. Boelcke sjálfur lést í október 1916 en hann hafði skotið niður 40 óvinavélar. Manfred var nú ákveðinn í að verða besti orrustuflugmaður Þýskalands og ákvað í árslok 1916 að það væri tímabært að bæði vinir og óvinir gerðu sér grein fyrir hver hann var. Á þessum tíma voru engar talstöðvar í flugvélum svo sumir flugmenn merktu vélar sínar sérstaklega svo það færi ekki á milli mála hver væri á ferðinni. Manfred ákvað að nota rauðan lit til að einkenna sína vél. Ekki er nákvæmlega vitað hví hann valdi þann lit en það má vera að það hafi verið í heiðursskyni við Uhlan-riddaraliðssveitina sem hann barðist með í byrjun stríðs en einkennislitur þeirra var rauður. Andstæðingar Þjóðverja vissu vel hver leiddi sirkusinn fljúgandi og vegna rauða litarins var Manfred nú kallaður „Rauði baróninn“.
Fjórar sveitir í eina
Hlutirnir gerðust nú hratt. Um sumarið 1917 fékk von Richthofen það hlutverk að sameina fjórar flugsveitir í eina. Sú sveit var skipuð þeim bestu og fékk heitið Jagdgeschwader 1 og von Richthofen varð yfirmaður hennar. Breski flugherinn gaf sveitinni nafnið sirkusinn fljúgandi (Flying Circus) vegna þess hve litskrúðugar vélar þeirra þýsku voru og sú staðreynd að sveitin var sjaldan lengi á sama stað í einu og liðsmenn bjuggu vanalega í tjöldum. Manfred von Richthofen var nú orðinn frægasti flugkappi Þýskalands. Í júlímánuði hafði Richthofen skotið niður 57 óvinavélar. Hann var enginn harðstjóri en gerði þó miklar kröfur til sinna manna, eins og hans sjálfs, hann drakk lítið og reykti sjaldan og krafðist þess af mönnum sínum að þeir forðuðust allan ólifnað. Manfred von Richthofen fékk á þessum tíma mörg hundruð bréf frá konum víðs vegar að en hann var aldrei við kvenmann kenndur og er hann var í leyfi frá vígstöðvunum sást hann aldrei í fylgd konu. Sumir tóku etir því að þessi fræga flughetja sat oft einn til borðs á veitingastöðum. Bróðir hans Lothar naut sín í samskiptum við konur en margir tóku eftir því að eldri bróðir hans var greinilega feiminn og óframfærinn er kom að samskiptum við hitt kynið. Á vígstöðvunum fylgdi Manfred eftir reglum Boelckes og brýndi því mönnum sínum að fljúga aldrei einir, alltaf minnst fjórir eða sex saman og aldrei taka óþarfa áhættu, aðeins leggja til árásar ef þeir væru nokkuð vissir um sigur. Menn hans og einnig andstæðingar báru takmarkalausa virðingu fyrir honum.
Þann 6 júlí særðist Manfred á höfði í bardaga og var í raun heppinn að sleppa lifandi. Kúla frá óvinavél hitti hann í höfuðið og hann missti allan mátt og sjón en fann þó hvað var að gerast. Tilfinning kom þó fljótlega aftur í liðamótin og hann gat stjórnað vélinni en var áfram sjónlaus og vissi ekkert hvað sneri upp né niður. Sjónin kom smátt og smátt og von Richthofen lenti vélinni heilu og höldnu. Þetta atvik hafði djúp áhrif á Manfred von Richthofen. Hann hafði sannarlega aldrei verið léttúðugur galgopi en gat þó gantast og glaðst. Eftir þessa reynslu, að hafa verið hársbreidd frá dauðanum, varð Manfred jafnvel ennþá meiri einfari og blandaði lítt geði við aðra.
Þann 21. apríl fóru von Richthofen og sex aðrir flugmenn í könnunarflug. Richthofen flaug Fokker þríþekju sem var nánast alrauð. Það fór ekki á milli mála hver var þar á ferð. Rauða þríþekjan hefur einatt verið tengd við Rauða baróninn en af 80 óvinavélum sem hann felldi þá voru það aðeins 9 sem féllu fyrir vélbyssum þríþekjunnar. Manfred von Richtofen var sigursælastur er hann flaug Albatros tvíþekju.
Ekki langt frá Þjóðverjunum voru andstæðingar þeirra Bretar einnig komnir á loft. Hinn reyndi Roy Brown leiddi þá sveit en í för með þeim var flugmaður, May að nafni, sem var í sinni fyrstu flugferð og hafði fengið skýrar skipanir um að halda sig frá bardögum. May stóðst þó ekki mátið er breska sveitin mætti þeim þýsku og reyndi að elta og skjóta niður þýska vél. Skyndilega var May kominn í miðjan bardagann og átti ekki möguleika gegn bestu flugmönnum Þjóðverja. Til að bæta gráu ofan á svart hafði May tekist að stífla vélbyssur sínar því hann hélt takkanum of lengi niðri. May ákvað að forða sér, tók dýfu og stefndi að bresku vígstöðvunum. Von Richthofen var fljótur að sjá að þarna var óreyndur flugmaður og því auðveld bráð. Það má þó vel vera að reynsluleysi May hafi hjálpað honum.
Reyndir flugmenn brugðust yfirleitt eins við í ákveðnum aðstæðum en May gerði hvað sem honum datt í hug og Richthofen átti erfitt með að sjá gjörðir hans fyrir. Roy Brown sá að May var í stórhættu og flaug því strax á eftir honum og Manfred. Hátt fyrir ofan þá fylgdust þýsku flugmennirnir með og skyldu ekkert í framferði von Richthofen því í raun allt sem hann gerði var í hrópandi mótsögn við hans eigin reglur sem hann hafði margoft lagt ríka áherslu á að þeir sjálfir færu eftir. Að fljúga í lágflugi yfir víglínur andstæðinganna var nokkuð sem Richthofen hafði harðbannað þeim en nú var rauða þríþekjan aðeins í nokkur hundruð metra hæð langt inn í landi óvinarins!? Þetta náði engri átt. Roy Brown var nú að nálgast Richthofen og byrjaði að skjóta. Ástralskar vélbyssuskyttur á jörðu niðri hófu einnig að skjóta á Þjóðverjann og aðrir hermenn í nágrenninu hleyptu af rifflum sínum. Þríþekjan skall í jörðina. Rauði baróninn var allur.
Áfall fyrir þjóðina
Áfallið var gífurlegt fyrir þýsku þjóðina. Manfred von Richthofen var þjóðhetja og hafði verið leiðandi í baráttunni gegn óvininum árum saman. Það var einnig eitthvað við flugmenn, sérstaklega orrustuflugmenn, sem heillaði fólk meira en annað. Ólíkt fótgönguliðum á jörðu niðri lögðu þeir líf sitt í hættu í háloftunum, heimi þar sem maðurinn var gestkomandi. Öllum var ljóst að starf þeirra var mjög hættulegt. Fallhlífar voru ekki teknar í notkun fyrr en seint í stríðinu og það voru aðallega Þjóðverjar sem notuðu þær en Bretar höfnuðu þeim af ótta við að flugmenn myndu gefast upp of fljótt og henda sér úr vélinni. Erich Ludendorff hershöfðingi sagði að dauði Rauða barónsins hefði verið svipað sálfræðilegt áfall fyrir þýska herinn og að missa heilt herfylki. Manfred von Richthofen var goðsögn í lifanda lífi en einnig áfram eftir dauða sinn.
Hvaðan kom skotið?
Hver skaut niður Manfred von Richthofen? Um það er deilt enn í dag. Eitt eru flestir þó sammála um. Það var ekki Roy Brown heldur kom kúlan sem grandaði Richthofen frá jörðu niðri. Menn töldu í fyrstu að það hefðu án efa verið áströlsku vélbyssuskytturnar. Líkið var með sár framan á búknum og einnig á fótum. Breski flugherinn mótmælti þessu þó ákaft og á endanum var ákveðið að færa Roy Brown þennan sigur enda var mörgum ljóst að það yrði gífurleg lyftistöng fyrir breska flugherinn og liðsanda hans. Í dag telja ýmsir að kúlan sem grandaði von Richthofen hafi verið úr riffli, ekki vélbyssu, og það sé nánast ómögulegt að komast að því hver skaut úr þeim riffli. Þó er það jafnvel enn stærri spurning að velta því fyrir sér hví von Richthofen hundsaði sínar eigin reglur og elti May inn yfir víglínur óvinanna? Það var algjört feigðarflan og þvert á það sem Richthofen sjálfur hafði kennt sínum mönnum. Svona nokkuð hafði hann aldrei gert áður. Getur verið að á þessum tímapunkti hafi honum hreinlega staðið á sama hvort hann myndi lifa eða deyja? Ýmislegt bendir til þess að hann hafi verið orðinn þunglyndur á þessu tímabili og eins og áður er getið þá var hegðun hans önnur eftir höfuðmeiðsli sem hann hlaut nokkrum mánuðum fyrir dauða sinn. Aðeins nokkrum vikum áður en hann lést reit hann svo í dagbók sína: „Mér líður ömurlega eftir hvern bardaga. Kannski hefur það eitthvað að gera með höfuðmeiðsli mín. Um leið og ég stíg fæti á jörðina, eftir flugferð, held ég beint til herbergis míns. Ég hef enga löngun til að sjá einhvern eða heyra eitthvað. Ég sé þetta stríð núna eins og það er í raun, ekki eins og almenningur ímyndar sér það. Þau halda að þetta sé gleðilegur bardagi þar sem menn öskra húrrahróp og halda til orrustu með bros á vör. Það er langt frá raunveruleikanum. Þetta stríð er mjög alvarlegt og ólýsanlega hryllilegt…"