Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hefur lagt það til við forsætisráðherra að fram fari óháð úttekt á störfum Braga Guðbrandssonar fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu. Þetta kom fram í máli ráðherra á opnum fundi velferðarnefndar á Alþingi í dag.
Í umfjöllun Stundarinnar á föstudag kom fram að Bragi hafi beitt sér fyrir því að maður fengi að umgangast dægur sína sem hann var grunaður um að kynferðisbrot gegn.
Bragi hefur verið tilnefndur fyrir Íslands hönd til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðuþjóðanna sem óformlegur fulltrúi Norðurlandanna.
Ásmundur sagði á fundinum í morgun að framboð Braga til þessa embættis væri ekki með beinum hætti á höndum hans ráðuneytis, heldur utanríkisráðuneytisins og fastanefndar Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum í New York. Hann sagði að þættist vita að utanríkisráðuneytið sé að fylgjast vel með þessu máli. Aðspurður um hvort forsvaranlegt sé að skipa Braga í embættið hjá Sameinuðu þjóðunum sagði Ásmundur að þegar einstaklingur hafi unnið í þessum málaflokki í áratugi sé ekki óeðlilegt að upp komi mál sem valdi ágreiningi.
Ásmundur sagði við upphaf fundarins þegar hann ávarpaði nefndina að hann teldi nauðsynlegt að formgera betur samskipti milli aðila í málaflokknum, skýra betur verkferla og mikilvægt að flytja eftirlitsþátt Barnaverndarstofu til nýrrar eftirlitsstofnunar.
Hann sagði það hafa verið niðurstöðu skoðunar félagsmálaráðuneytisins að Bragi hafi ekki brotið af sér í starfi og þannig ekki tilefni til áminningar. Nokkur mál hafi verið til skoðunar eitt þeirra hafi verið skoðað sérstaklega, sú niðurstaða sé viðkvæm og bundin trúnaði.
Ásmundur sagði ástæðu þess að langan tíma hafi tekið að skila velferðarnefndinni öllum gögnum málsins þá að umfang þeirra væri gríðarlega mikið, um væri að ræða í kringum þúsund blaðsíður. Hann hafi óskað eftir því við ráðuneytið að farið verði yfir þá afstöðu, kallaðir verði til lögfróðir einstaklingar í upplýsinga- og persónuverndarmálum til að athuga hvort hægt sé að aflétta trúnaði til að hægt sé að birta niðurstöðuna.