Stór hluti Íslendingar er andvígur sölu áfengis í matvöruverslunum. Stuðningsfólk Framsóknar er mest andvígt því en stuðningsfólk Viðreisnar eru hvað hlynntust því. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Í könnuninni sögðu 73,7 prósent aðspurðra að þeir væru andvígir sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum og 54,8 prósent sölu á léttu áfengi og bjór. Könnunin var framkvæmd á dögunum 2.-12. mars síðastliðinn og svöruðu 995 manns. Andstaðan við málefnið stendur nokkurn veginn í stað frá því að Félagsvísindastofnun birti niðurstöður úr rannsókn sinni fyrir um ári síðan. Þá voru 69,2 prósent á móti sölu áfengis í matvöruverslunum.
Nær allir stuðningsmenn Framsóknar sem tók þátt í könnuninni, eða 96 prósent, voru andvígir sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum. Stuðningsfólk Flokks fólksins, Vinstri grænna og Samfylkingarinnar voru einnig andvíg sölu áfengis í matvöruverslunum. Stuðningsfólk Viðreisnar, Pírata og Sjálfstæðisflokks tjáðu mestan stuðning við sölu áfengis í matvöruverslunum.
Minni andstaða við sölu á léttu áfengi og bjór
Aðeins 15,3 prósent voru hlynnt sölu á sterku áfengi í matvöruverslunum og 35,8 prósent sögðust vera hlynnt sölu á léttu áfengi og bjór. Svarendur yngsta aldurshópsins, 18-29 ára, reyndust í meira mæli hlynnt sölu á létt áfengi og bjór í matvöruverslunum eða 52 prósent.
Andstaða við sölu áfengis í matvöruverslunum jókst með hækkandi aldri. Yfirgnæfandi meirihluti, eða 84 prósent, í elsta aldurshópnum, 68 ára og eldri, taldi að áfengi ætti ekki að vera selt í matvöruverslunum. Af þeim voru 70 prósent mjög andvíg. Andstaða var minni meðal svarenda á höfuðborgarsvæðinu, 52 prósent, en á landsbyggðinni, 59 prósent. 62 prósent kvenna voru andvígar en aðeins 49 prósent karla.