Jóhannes Þór Skúlason, fyrrverandi aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef samtakanna í dag.
Samkvæmt tilkynningunni var Jóhannes Þór valinn úr hópi 41 umsækjanda um starfið.
Jóhannes Þór tók þátt í starfi InDefence hópsins svokallaða, sem barðist gegn Icesave-samningunum, frá bankahruni og fram í febrúar 2011. Þá tók hann við starfi aðstoðarmanns þáverandi formanns Framsóknarflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem þá var í stjórnarandstöðu.
Eftir að Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra eftir kosningarnar 2013 varð Jóhannes Þór aðstoðarmaður hans í forsætisráðuneytið og helsti ræðuhöfundur. Því starfi gegndi Jóhannes Þór þar til að Sigmundur Davíð sagði af sér embætti í apríl 2016 vegna Wintris-málsins.
Jóhannes stofnaði svo ráðgjafafyrirtækið Orðspor í fyrra, en tók aftur til starfa sem aðstoðarmaður Sigmundar Davíðs fyrir síðustu alþingiskosningar, þá sem oddviti Miðflokksins.
Jóhannes Þór hefur störf hjá SAF 10. júní næstkomandi. Hann tekur við af Helgu Árnadóttur sem verið hefur framkvæmdastjóri samtakanna frá árinu 2013.