Íslenskir háskólanemar glíma við fleiri heilsufarsvandamál og fjárhagsörðugleika auk þess sem þeir vinna meira með skóla en evrópskir nemendur. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Mennta-og menningarmálaráðuneytisins sem birt var í gær.
Skýrslan var unnin úr niðurstöðum Eurostudent-könnunarinnar, sem er á vegum Evrópusambandsins og kannar félags-og efnahagslegar aðstæður háskólanema. Könnunin náði til 28 Evrópulanda. Maskína sá um framkvæmd könnunarinnar hér á landi, en hún fór fram um vorið 2016.
Sexfalt fleiri með námserfiðleika
Samkvæmt skýrslunni var hlutfall nemenda á Íslandi sem skilgreina sig með fötlun, hömlun eða langvarandi heilsufarsvandamál með því mesta sem gerist í öllum 28 þátttökulöndum könnunarinnar.
Mestur var munurinn þó á hlutfalli nema sem sögðust eiga við athyglisbrest, ofvirkni, lesblindu eða aðra námserfiðleika að stríða, en 18% íslenskra háskólanema svöruðu þeirri spurningu játandi, samanborið við 3% háskólanema í Evrópu. Með öðrum orðum er munurinn sexfaldur.
Í hópi með Georgíu og Albaníu
Samkvæmt könnuninni vinna íslenskir nemendur að meðaltali 15 tíma á viku, til samanburðar við 12 tíma í Evrópu og Norðurlöndunum. Sömuleiðis vinnur tæpur helmingur þeirra allt skólaárið hér á landi, en einungis 35% háskólanema í Evrópu.
Þrátt fyrir að það sé algengara að háskólanemar á Íslandi vinni með námi en evrópskir jafningjar þeirra segjast margir nemenda á Íslandi einnig glíma við mikla fjárhagserfiðleika, eða um 34%. Þetta er töluvert hærra hlutfall en í Evrópu, en Ísland er meðal sex landa þar sem meira en þriðjungur háskólanema segist glíma við mikla fjárhagsörðugleika. Hin löndin eru Georgía, Albanía, Slóvenía, Pólland og Írland.
Eigin tekjur, minni námslán, hærri leiga
Hlutfall ráðstöfunartekna háskólanema á Íslandi sker sig einnig úr miðað við önnur Evrópulönd, en Íslendingar lifa meira á áunnum tekjum heldur en framfærslu frá fjölskyldu eða maka. Sé miðað við Norðurlönd er einnig mikill munur á því hversu mikið við reiðum okkur á námslán, en Norðurlandabúar taka rúmlega tvöfalt meira af námslánum en Íslendingar, sé miðað við þau sem hlutfall af ráðstöfunartekjum.
28% háskólanema hér á landi búa hjá foreldrum, forsjáraðilum eða ættingjum. Það er töluvert hærra hlutfall en á Norðurlöndunum, þar sem samsvarandi hlutfall er einungis 8%. Fyrir þá Íslendinga sem búa í leiguhúsnæði með háskólanámi er leigukostnaðurinn töluvert hærra hlutfall af ráðstöfunartekjum en í Evrópu. Sé miðað við Norðurlönd er munurinn þó minni og í mörgum tilvikum dýrara að leigja þar.