Stjórnvöld í Íran segjast ekki ætla að láta Donald Trump, Bandaríkjaforseta, komast upp með það að beita Íran hörðum viðskiptaþvingunum. Öllum tilraunum til að kúga Íran verði svarað af mikilli hörku.
Þá sagði Hassan Rouhani, forseti Íran, að nú gætu Íranir haldið áfram að auðga úran „án takmarkana“. Skipanir hafa þegar verið gefnar út til kjarnorkumálastofnunar landsins um að setja aukin kraft í kjarnorkumálaáætlun landsins.
Donald Trump tilkynnti um það í ávarpi í dag, að hann hefði ákveðið að draga Bandaríkin út úr kjarnorkuvopnasamkomulaginu frá árinu 2015.
The Obama Administration negotiated a landmark agreement to prevent Iran from obtaining a nuclear weapon. @realDonaldTrump’s decision to withdraw from the deal breaks our word, hurts our credibility with our allies, empowers Iranian hardliners, and doesn’t make us any safer.
— Elizabeth Warren (@SenWarren) May 8, 2018
Bandaríkin, Frakkland, Bretland, Rússland, Kína, Þýskaland og Evrópusambandið stóðu að samkomulaginu við Íran, sem þvingaði Íranstjórn til að takmarka kjarnorkuvopnaframleiðslu sína, og þá voru efnahagsþvinganir gagnvart Íran felldar niður. Þannig gat Íran komið sinni helstu útflutningsvöru, olíu, betur á heimsmarkað og myndað ný viðskiptatengsl.
Trump sagði í ávarpi sínu, að Ísrael hefði undir höndum óyggjandi sannanir fyrir því að Íran hefði ekki staðið við samkomulagið, og því væri það marklaust. Þá sagði Trump að hann vildi fólkinu í Íran vel, og það ætti betra skilið en ógnarstjórn sem styddi hryðjuverkasamtök um allan heim.
Antonio Guterres, aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna hvetur þjóðirnar sem undirrituðu kjarnorkusamkomulagið við Íran að standa við það þótt Donald Trump hafi í dag ákveðið að draga Bandaríkin út úr því.
Federica Mocherini, utanríkismálastjóri Evrópusambandsins, sagði stuttu eftir að Trump tilkynnti um ákvörðunina að ESB stæði við samkomulagið.