Eldri samningum þjónustufulltrúa var sagt upp síðastliðið haust með fjögurra mánaða fyrirvara og var haft fullt samráð við stéttarfélag og trúnaðarmann starfsmanna í þessum ferli. Þjónustufulltrúum bauðst nýr samningur sem tók gildi um síðastliðin áramót sem felur í sér 15 prósent yfirborgun frá kjarasamningi og var þetta ein af fjölmörgum aðgerðum við að draga úr kostnaði við viðburðahald. Störf þjónustufulltrúa eru unnin í tímavinnu og tengjast nánast einvörðungu viðburðahaldi í húsinu.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Hörpu sem send var út fyrir hádegi í dag.
Í frétt Kjarnans sem birtist í gærkvöldi kom fram að tuttugu þjónustufulltrúar í Hörpu höfðu ákveðið að segja upp störfum sínum í kjölfar fundar með Svanhildi Konráðsdóttur, forstjóra Hörpu. Ástæðan var óánægja með launahækkun forstjórans, upp á um 20 prósent, en stutt er síðan starfsfólk í Hörpu tók á sig launalækkanir vegna erfiðleika í rekstri.
Fundurinn var boðaður eftir fréttir um þjónustufulltrúa í Hörpu sem ofbauð svo launahækkun Svanhildar að hann sagði upp. „Stuttu eftir að laun forstjóra voru hækkuð af stjórn Hörpu, voru laun þjónustufulltrúa lækkuð. Á fundinum staðfesti Svanhildur að þjónustufulltrúar Hörpu væru einu starfsmennirnir sem gert var að taka á sig beina launalækkun. Hópur starfsmanna sem þá þegar var launalægstur allra starfsmanna Hörpu,“ segir í tilkynningu frá þjónustufulltrúunum.
Reksturinn þungur
Í yfirlýsingu Hörpu kemur fram að rekstur hússins hafi verið þungur um árabil og á síðasta ári hafi eigendur og stjórn gert skýra kröfu um að ráðist yrði í aðgerðir til að bæta reksturinn og draga úr tapi. Síðastliðið sumar hafi endurskoðun hafist á öllum rekstrarþáttum Hörpu og muni sú vinna standa yfir næstu misserin. Aðgerðir til að bæta rekstur birtist með ýmsum hætti á mismunandi starfssviðum Hörpu.
„117 einstaklingar eru á launaskrá hjá Hörpu. Allir starfsmenn félagsins, þjónustufulltrúar sem aðrir, hafa lagt sitt lóð á vogarskálarnar með breytingum á vinnufyrirkomulagi og kjörum en einnig með auknu vinnuframlagi þar sem ekki er ráðið í laus störf og mönnun á mörgum sviðum minnkuð þar sem sem því hefur verið við komið,“ segir í yfirlýsingunni.
Þjónustufulltrúarnir ósáttir við skýringarnar
Eftir fundinn voru margir þjónustufulltrúar ósáttir við skýringar forstjórans, samkvæmt tilkynningunni, þá sérstaklega um það af hverju engir aðrir starfsmenn hússins hafi þurft að taka á sig launalækkun.
Ákváðu því allir þjónustufulltrúar sem sátu fundinn að segja þegar upp störfum, 15 talsins og nokkrir aðrir í kjölfarið. „Meðal þeirra sem sögðu upp voru t.d. nokkrir búnir að vinna í Hörpu frá opnun og flestir með langan starfsaldur, meðal annars allir vaktstjórar [...] Svanhildur talaði um að á sínum tíma eða í september 2017, hefðu launalækkanir þjónustufulltrúa verið mildar aðgerðir sem væru hluti af samstilltu átaki um að rétta af fjárhag Hörpu. Af þessu má sjá að ákveðið misræmi er greinilega í þeirri staðhæfingu þar sem aðeins lægst launuðu starfsmenn hússins hafa tekið á sig beina launalækkun,“ segir í tilkynningunni.
Íslenska ríkið á 54 prósent í Hörpu en Reykjavíkurborg 46 prósent.
Hér fyrir neðan má lesa yfirlýsingu Hörpu í heild sinni.