Efnahagssvið Samtaka atvinnulífsins hefur framkvæmd greiningu á fjárhagsstöðu sveitarfélaganna. Þar kemur meðal annars fram að þegar rekstur tólf stærstu sveitarfélaga landsins er borinn saman kemur í ljós að þau sem koma best út taka hlutfallslega minnst til sín í formi skattheimtu. Auk þess mælist ánægja íbúa með leik- og grunnskóla mest í þeim sveitarfélögum sem koma best út í rekstrarsamanburðinum.
Í greiningunni segir að Akranes, Seltjarnarnes og Garðabær komi best út þegar fjárhagsstaða sveitarfélaganna er borin saman, en Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður verst. Seltjarnarnes, Garðabær og Vestmannaeyjar innheimta hlutfallslega lægstu skattana af meðaltekjum íbúa sinna á sama tíma og Akureyri, Fjarðabyggð og Reykjavík taka hlutfallslega mest til sín.
„Auðvitað er mikilvægt að hafa í huga að sveitarfélög njóta góðs af því ef meðaltekjur íbúa eru miklar en að sama skapi má segja að þar sem skattheimta er lágt hlutfall meðaltekna hafi sveitarstjórnir staðist ákveðna freistingu. Þær hefðu getað hækkað skatta til jafns við önnur sveitarfélög og aukið þannig álögur á íbúa,“ segir SA.
Þá bera samtökin saman hvernig skattar og önnur gjöld leggjast á sama einstaklinginn eftir því hvar hann væri búsettur. Miðað við þann mælikvarða er samkvæmt greiningunni ódýrast að búa í Garðabæ en dýrast að búa í Árborg. Mismunurinn ríflega 180 þúsund krónur á ári milli þessara tveggja sveitarfélaga. „Mikil fylgni er á milli fjárhagsstöðu sveitarfélaga og skattlagningar. Með öðrum orðum er hagkvæmast að búa í vel reknum sveitarfélögum.“