RÚV hefur endursamið við Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins (LSR) um að breyta skilmálum á skuldabréfi í eigu sjóðsins sem er tilkomið vegna ógreiddra lífeyriskuldbindinga.
Verulega er lengt í greiðsluferli bréfsins, en lokagjalddagi þess er nú 1. október 2057 í stað 1. apríl 2025. Samhliða er höfuðstóll hækkaður og vextir lækkaðir úr fimm prósentum í 3,5 prósent.
Í tilkynningu sem send var til kauphallar vegna samkomulagsins, og er dagsett 23. apríl síðastliðinn, segir að samkvæmt nýju skilmálunum muni RÚV greiða skuldina í 79 greiðslum sem inna á af hendi á sex mánaða fresti. Hver greiðsla með verðtryggingu er, miðað við gildandi vísitölu, 68,9 milljónir króna. Því borgar RÚV, miðað við núverandi vísitölu, 137,8 milljónir króna á ári í næstu 39 árin. Heildargreiðslan verður því 5.443 milljónir króna ef vísitala neysluverðs helst óbreytt. Í ársreikningi RÚV fyrir árið 2017 var skuldin bókfærð á tæplega 2,7 milljarða króna.
RÚV er heimilt að greiða upp skuldina, að fullu eða að hluta, samkvæmt skuldabréfunum án viðbótar kostnaðar eftir 1. apríl 2025.
Gamall vandi
Lífeyrisskuldbindingarnar sem eru orsök skuldarinnar voru látnar fylgja með þegar RÚV var breytt úr stofnun í opinbert fyrirtæki. Árum saman voru greiðslur vegna þeirra fjármagnaðar með lántökum.
Árið 2014 náði RÚV samkomulagi við LSR um að fresta greiðslum á bréfinu án þess að dráttarvextir myndu bætast við. Á endanum var ákveðið að slíkur frestur yrði gefinn til 1. apríl 2016 en að í millitíðinni yrði viðræðum áframhaldið. Með skilmálabreytingu þann 30. mars 2015 var skilmálum skuldabréfa í skuldabréfaflokknum breytt þannig að tilteknar greiðslur voru höfuðstólsfærðar og lánstími lengdist þannig að lokagjalddagi varð 1. apríl 2025 í stað 1. október 2023.
Þann 23. apríl síðastliðinn var tilkynnt um að RÚV og LSR hefðu lokið við að semja um skilmálabreytingu á skuldabréfinu sem felur í sér lækkun vaxta, breytingu á greiðsluferli, hækkun á höfuðstól og færslu síðasta gjalddaga lánsins frá 2025 til 2057.
6,6 milljarða tekjur
Í ársreikningi RÚV vegna ársins 2017 kemur fram að hagnaður fyrirtækisins á árinu hafi verið 321,3 milljónir króna. Munar þar mest um viðbótarhagnað sem fallið hefur til vegna sölu RÚV á byggingarétti á lóð fyrirtækisins í Efstaleiti, en hann nam 174 milljónum krónum í fyrra. Alls hefur sala á byggingarétti skilað RÚV um tveimur milljörðum króna en meginþorri þeirrar upphæðar var tekjufærður á árinu 2016.
Í ársreikningnum kemur fram að RÚV hafi fengið 4,1 milljarða króna frá hinu opinbera vegna almannaþjónustuhlutverks síns á árinu 2017. Auk þess náði fyrirtækið í 2,3 milljarða króna í samkeppnistekjur, sem felast fyrst og síðast í sölu auglýsinga og kostunar. Um 20 manns starfa við þá tekjuöflun hjá RÚV. Að viðbættum bókfærðum tekjum vegna sölu byggingaréttar námu tekjur RÚV því um 6,6 milljörðum króna í fyrra. Rekstrargjöld voru 5,9 milljarðar króna og fjármagnsgjöld, greiðslur af lánum RÚV, voru 282,5 milljónir króna. Þær greiðslur munu væntanlega lækka umtalsvert á þessu ári í ljósi þess samkomulags um lengingu skuldabréfsins í eigu LSR sem greint er frá hér að ofan.
Skuldir RÚV voru 6,2 milljarðar króna um síðustu áramót og höfðu aukist um 221 milljón króna á milli ára. Óráðstafað eigið fé, sem mætti nýta til að greiða niður skuldir, jókst þó sömuleiðis á milli ára og er nú tæplega 1,1 milljarður króna.