Gylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusambands Íslands segir að hann og Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR hafi verið ósammála um leiðir í kjarabaráttu en að honum þyki nokkuð merkilegt að Ragnar vilji fara fram með þessu offorsi til þess að banna umræðu. „Ég er talsmaður þess að eiga samtal, bæði við samherja mína og andstæðinga og ég lít nú á Ragnar sem samherja minn. Við erum að sinna baráttu sömu hópanna,“ segir hann í samtali við mbl.is í dag.
Eins og fram kom í fréttum í morgun þá mun Ragnar Þór á næstu dögum gefa út formlega vantraustsyfirlýsingu á hendur Gylfa eftir að ASÍ neitaði að taka niður auglýsingu um kaupmáttaraukningu.
Ragnar Þór sendi tölvupóst á félagsmenn ASÍ í vikunni þar sem hann óskaði eftir því að auglýsing á facebooksíðu ASÍ yrði tekin niður, annars myndi hann ásamt öðrum formönnum aðilarfélaga ASÍ lýsa yfir vantrausti á forsetann. Hann hefur áður lýst vantrausti á Gylfa en ætlar núna að gera það með formlegum hætti.
Tilefnið er, sem fyrr segir, myndband á vegum ASÍ sem VR og Framsýn hafa sagt gera lítið úr kjarabaráttu verkafólks. Farið er yfir þróun kjaramála í myndbandinu undanfarna áratugi og færð rök fyrir því að „vel skipulögð sókn með raunhæf langtímamarkmið“ hafi skilað launafólki meiri kjarabót en átök fyrri áratuga. Kröfu um að taka myndbandið niður var hafnað af ASÍ.
„Það er náttúrulega ekkert nýtt að Ragnar lýsi yfir vantrausti á mig. Hann hefur gert það áður eins og haft er eftir honum í fréttinni. Nú ætlar hann að gera það með formlegum hætti og ég bíð bara spenntur eftir því að sjá hvernig það verður,“ segir Gylfi í samtali við mbl.is. Hann bendir jafnframt á að næsta þing ASÍ fari fram í október í haust og fram að því hafi hann fullt umboð.