Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, fundaði með Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra, í forsætisráðuneytinu í dag, og var þar meðal annars rætt um borgarlínuverkefið.
Frá þessu er greint á vef stjórnarráðsins.
Á fundinum fór Dagur yfir undirbúningsvinnu vegna borgarlínu, og næstu skref í samtali milli ríkis og borgar um samgönguframkvæmdir á höfuðborgarsvæðinu. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu hafa unnið í sameiningu að undirbúningi borgarlínu.
Þau ræddu mikilvægi þess að góð samstaða tækist um framhaldið þannig að hefja megi formlegar viðræður ríkisins og Reykjavíkurborgar og annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um fjármögnun Borgarlínu og annarra framkvæmda á næstu árum.
Borgarlínan er hugsuð sem nýtt og afkastamikið kerfi almenningssamgangna sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu, þar sem meginþorri íbúa Íslands býr, eða yfir 200 þúsund manns af 350 þúsund manna heildaríbúafjölda.
„Borgarlínan er forsenda þess að sveitarfélögin geti þétt byggð í miðkjörnum og við línuna og vaxið án þess að brjóta nýtt land undir byggð utan skilgreindra vaxtarmarka. Með Borgarlínu verður hægt að byggja hagkvæmari rekstrareiningar með að byggja þéttari byggð t.d. með því að hafa færri bílastæði. Borgarlínan mun ganga eftir samgöngu- og þróunarásum sem verið er að festa í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins,“ segir í umsögn um verkefnið á vef samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Borgarlína hefur verið mikið hitamál, ekki síst núna í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga. Skiptar skoðanir hafa verið um ágæti þessi verkefni, einkum innan Sjálfstæðisfloksins.