Arion banki tilkynnti í morgun um að hann hyggðist efna til frumútboðs á hlutabréfum í bankanum. Jafnframt er ætlunin að skrá hlutabréf í bankanum í kauphöll á Íslandi og í Svíþjóð.
Þetta kemur fram í tilkynningu bankans til Kauphallar.
Stefnt er að því að skráning hlutabréfa í bankanum hjá Nasdaq á Íslandi og skráning hlutabréfa í formi svokallaðra SDR (e. Swedish Depository Receipts) hjá Nasdaq í Stokkhólmi fari fram á fyrri hluta ársins að því gefnu að lagaskilyrði séu uppfyllt og markaðsaðstæður leyfi, að því er segir í tilkynningu.
Unnið hefur verið að undirbúningi skráningar bankans undanfarin misseri, en ríkið átti 13 prósent í bankanum þar til fyrir skömmu, að það seldi hann fyrir 23,4 milljarða króna.
Hagnaður samstæðu Arion banka á fyrstu þremur mánuðum ársins nam 1,9 milljörðum króna samanborið við 3,4 milljarða króna á sama tímabili 2017, eins og greint var frá á vef Kjarnans 2. maí. Arðsemi eigin fjár var aðeins 3,6% samanborið við 6,3% fyrir sama tímabil árið 2017, en þetta telst lágt í alþjóðlegum samanburði.
Þá var kostnaðarhlutfall bankans hátt, eða 70,8 prósent, en til samanburður hefur Landsbankinn, stærsti banki landsins, sett sér það markmið að ná kostnaðarhlutfalli niður í 45 prósent.
Heildareignir námu 1.131,8 milljörðum króna í lok mars 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 204,1 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.
Stærsti eigandi bankans, með 55,6 prósent hlut, er Kaupþing.