Umsóknarfrestur um embætti forstjóra Vegagerðarinnar rennur út á morgun 19. maí og verður listi með umsækjendum birtur strax eftir hvítasunnuhelgina, eða þriðjudaginn 22. maí næstkomandi.
Þetta kemur fram í svari samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins við fyrirspurn Kjarnans.
Embættið var fyrst auglýst á Starfatorgi og í dagblöðum en samkvæmt lögum ber að auglýsa það einnig í Lögbirtingablaði og láðist að gera það samhliða. Því framlengdist umsóknarfresturinn um tvær vikur eftir að auglýsingin birtist þar.
Í auglýsingu ráðuneytisins kemur fram að leitað sé eftir einstaklingi sem hefur leiðtogahæfileika, sé framsýnn í hugsun, hafi sýnt hæfni í samskiptum og samvinnu og hafi metnað til að ná árangri í þágu almennings og atvinnulífs. Krafist er háskólamenntunar á meistarastigi eða sambærilegrar reynslu sem nýtist í starfi, árangursríkrar reynslu af áætlunargerð, stjórnun og rekstri og góðrar þekkingar og reynslu af stefnumótun. Segir jafnframt í auglýsingunni að reynsla af alþjóðasamstarfi sé kostur og að færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku nauðsynleg.
Hreinn Haraldsson hefur gegnt starfi vegamálastjóra síðan árið 2008 þegar Kristján L. Möller, þáverandi samgönguráðherra, skipaði hann í embættið.