Atvinnuleysi innan Evrópusambandsins heldur áfram að lækka. Í mars síðastliðnum var það 7,1 prósent. Í nóvember síðastliðnum mældist atvinnuleysi í öllum aðildarríkjunum 28 7,3 prósent sem var minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur innan sambandsins frá því í hrunmánuðinum október 2008, eða í rúm níu ár. Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Þar segir að fjöldi atvinnulausra innan Evrópusambandsríkjanna hafi verið 17,5 milljónir í marsmánuði. Þar af bjuggu 13,8 milljónir þeirra innan þeirra ríkja sem eru með evru sem gjaldmiðil, en atvinnuleysi innan þess svæðis mældist 8,5 prósent. Það er minnsta atvinnuleysi sem mælst hefur innan evrusvæðisins frá því í lok árs 2008.
Minnst mældist atvinnuleysið í Tékklandi (2,1 prósent), Möltu (3,3 prósent) og í Þýskalandi (3,4 prósent). Það mælist hins vegar langmest í Grikklandi (20,6 prósent), Spáni (16,1 prósent) og á Ítalíu (11,0 prósent). Atvinnuleysið í Grikklandi hefur þó minnkað mest allra aðildarríkja á undanförnum árum, en það var 23,2 prósent haustið 2016.
Til samanburðar má nefna að atvinnuleysi í Bandaríkjunum var 4,1 prósent í mars 2018. Á Íslandi var það 2,4 prósent í apríl síðastliðnum.
Atvinnuleysi ungmenna dregst líka saman
Atvinnuleysi á meðal ungs fólks hefur lengi verið mikið vandamál í sumum Evrópusambandsríkjum, sérstaklega Grikklandi (42,3 prósent), Spáni (35 prósent) og Ítalíu (31,7 prósent). Vert er að taka fram að þetta eru þau þrjú lönd heims sem talin eru vera með stærstu svörtu hagkerfin. Tölur Eurostat ná ekki yfir þá sem stunda svarta atvinnustarfsemi.
Alls voru 3,5 milljónir manna undir 25 ára aldri atvinnulausir í löndum Evrópusambandsins í mars síðastliðnum, og 2,5 milljónir þeirra voru frá ríkjum innan evrusvæðisins. Atvinnulausum ungmennum innan sambandsins hefur fækkað um 409 þúsund frá marsmánuði 2017.
Lág verðbólga og stöðugur vöxtur
Verðbólga er almennt lág innan Evrópusambandsins. Hún mælist nú 1,4 prósent en var tvö prósent fyrir ári síðan og fór yfir fjögur prósent í kringum hrunið. Innan evrusvæðisins mælist verðbólgan 1,2 prósent og hefur lækkað um 0,7 prósentustig á einu ári. Til samanburðar er verðbólga á Íslandi 2,3 prósent og 2,5 prósent í Bandaríkjunum.
Efnahagur Evrópusambandsríkjanna hefur stöðugt verið að styrkjast á undanförnum árum. Árið 2016 var til að mynda meiri hagvöxtur á evrusvæðinu en í Bandaríkjunum og var það í fyrsta sinn frá hruni sem það gerðist.
Hagvöxtur á síðasta ári var 2,4 prósent og spár gera ráð fyrir því að hann verði í kringum tvö prósent í ár og á næsta ári. Það er mesti hagvöxtur sem orðið hefur innan sambandsins í áratug. Evrusvæðið vex hraðar en Bretland, sem ætlar að segja sig úr sambandinu vorið 2019.