Körlum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 18.960 frá lokum árs 2011. Á sama tíma hefur konum fjölgað um 12.530 talsins. Körlum hefur því fjölgað umfram konur um 6.430 á rúmum sex árum og eru nú 177.600, en konur 170.850. Karlar eru því 6.750 fleiri en konur eins og er. Þetta má lesa út úr nýbirtum tölum Hagstofu Íslands.
Þar kemur fram að hlutfall karla hafi verið 50,2 prósent af heildaríbúafjölda Íslands í lok árs 2011 en er nú um 51 prósent. Samkvæmt mannfjöldaspá mun þessi þróun halda áfram næstu árin. Í byrjun árs 2022 munu karlar til að mynda verða orðnir 10.669 fleiri en konur samkvæmt miðspá Hagstofu Íslands og 13.599 fleiri samkvæmt háspá hennar.
Langflestir sem hingað koma eru karlar, enda mikil eftirspurn eftir vinnuafli í greinum þar sem þeir eru líklegri til að starfa í, sérstaklega byggingaiðnaði. Í fyrra fluttu 7.888 erlendir ríkisborgarar til landsins umfram brottflutta. Þar af voru 5.309 karlar, sem þýðir að tveir karlar með erlent ríkisfang fluttu til landsins fyrir hverja konu sem það gerði.
Erlendir ríkisborgarar gætu orðið 17 prósent landsmanna innan skamms
Í mannfjöldaspánni, sem var birt í lok október 2017, mun aðfluttum umfram brottflutta á Íslandi fjölga um 18.266 frá byrjun árs 2018 til 1. janúar 2021 samkvæmt miðspá. Samkvæmt háspá mun þeim fjölga um 28.584 á tímabilinu. Í þessum hópi eru nánast einvörðungu erlendir ríkisborgarar sem flytja til Íslands.
Erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi hefur fjölgað um 89 prósent frá lokum árs 2011. Þá bjuggu hér 20.930 slíkir en í lok mars síðastliðins voru þeir 39.570. Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 fjölgaði erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi um 2.880 talsins, sem er langt umfram það sem háspá Hagstofunnar gerði ráð fyrir að þeim myndi fjölga. Ef fjölgunin verður jafn mikil á seinni þremur ársfjórðungum ársins mun erlendum ríkisborgurum á Íslandi fjölga um 11.520 í ár. Háspá Hagstofunnar gerði ráð fyrir 5.912 manna aukningu.