Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), nýtur ekki trausts stjórnar VR, stærsta stéttarfélags landsins, til að leiða komandi kjaraviðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyri hönd VR. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá stjórninni sem birt var í dag.
Þar segir að stjórnin telji að Gylfi hafi ekki rækt það meginhlutverk sitt að taka málstað félagsmanna aðildarfélaga ASÍ og tryggja að hagsmunir þeirra séu ætið efstir á blaði. „Þrátt fyrir skýra kröfu grasrótarinnar innan aðildarfélaga ASÍ um breyttar áherslur og róttækari verkalýðsbaráttu hefur forseti ASÍ kosið að sniðganga þær kröfur og þær breytingar sem orðið hafa í forystu verkalýðshreyfingarinnar og notað til þess rödd Alþýðusambandsins. Forseti ASÍ nýtur því ekki trausts til að leiða viðræður við stjórnvöld eða Samtök atvinnulífsins fyrir okkar hönd og mun ekki tala í umboði okkar,“ segir í yfirlýsingunni.
Gylfi hissa
Í samtali við RÚV kveðst Gylfi vera hissa á yfirlýsingunni. Greinilegt sé að stjórn VR sé í nöp við sig og við því sé lítið að gera. „Það er alveg ljóst að það er skoðanamunur í okkar hreyfingu um aðferðir í kjarabaráttu. Ég hef reynt að efla þá umræðu innan okkar samtaka. Meðal annars með fundum vítt og breytt um landið. Mjög mikilvægt að stefnan sé mótuð í nánu samtali við aðildarfélög og síðan á þingi sambandsins.“
Kjörtímabil Gylfa sem forseta ASÍ rennur út í haust og búist er fastlega við mótframboði frá þeim stéttarfélögum sem gengið hafa í gegnum forystuskipti undanfarin misseri þar sem forystufólk með róttækari afstöðu til kjarabaráttu hafa tekið við. Þar ber helst að nefna VR og Eflingu, tvö stærstu stéttarfélög landsins.
Rifist um auglýsingu
Vantrausttillagan var ekki án fyrirvara. Fyrr í þessum mánuði tókust Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, og Gylfi á um auglýsingu um kaupmáttaraukingu sem birt var á Facebook-síðu ASÍ. Ragnar Þór sagði þá að hann myndi, ásamt öðrum formönnum aðildarfélaga ASÍ, lýsa yfir vantrausti með formlegum hætti á Gylfa ef auglýsingin yrði ekki tekin niður.
Í auglýsingunni var farið yfir þróun kjaramála undanfarna áratugi og færð rök fyrir því að „vel skipulögð sókn með raunhæf langtímamarkmið“ hafi skilað launafólki meiri kjarabót en átök fyrri áratuga. Kröfu um að taka myndbandið niður var hafnað af ASÍ. Það má sjá hér að neðan.
Um hvað snýst vönduð verkalýðsbarátta?Vönduð verkalýðsbarátta snýst um tvennt: Kaupmátt launa og öryggisnet fjölskyldunnar. Í krafti órofa samstöðu launafólks hefur ASÍ tekist að lyfta Grettistaki á síðustu 100 árum. Við erum nefnilega svo sterk saman.
Posted by Alþýðusamband Íslands - ASÍ on Monday, May 21, 2018