Hlutfallslega flestir strikuðu yfir oddvita Sjálfstæðisflokksins, Eyþór Arnalds, í borgarstjórnarkosningunum á laugardaginn samkvæmt upplýsingum Kjarnans. Eva B. Helgadóttir formaður yfirkjörstjórnar í Reykjavík staðfestir að kjörstjórnin hafi lokið yfirferð sinni á breyttum listum á kjörseðlunum.
Alls fékk Sjálfstæðisflokkurinn 18.146 atkvæði og þar af var 701 þeirra breytt eða 3,9 prósent. Algengustu breytingarnar voru þær að strika yfir Eyþór Arnalds oddvita eða 503 kjósendur flokksins, sem gera 3 prósent.
Samfylkingin fékk 15.260 atkvæði. Þar af breyttu 426 seðlinum eða 2,8 prósent. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri fékk 15.183 atkvæði í fyrsta sæti listans. Þannig virðast 0,5 prósent kjósenda flokksins hafa viljað annan einstakling í fyrsta sætið.
Viðreisn fékk 4.812 atkvæði, þar af voru 134 breyttir seðlar eða 2,8 prósent.
Píratar fengu 4.556 atkvæði, 58 kjósendur breyttu kjörseðli sínum eða 1,3 prósent.
Sósíalistaflokkurinn fékk 3.758 atkvæði, 17 breyttu seðlum sínum eða 0,45 prósent.
Miðflokkurinn hlaut 3.615 atkvæði, 55 þeirra var breytt eða 1,5 prósent.
Vinstri hreyfingin - grænt framboð fékk 2.700 atkvæði. Af þeim breyttu 31 kjörseðlinum eða 1,1 prósent. Alls strikuðu 14 kjósendur flokksins yfir Líf Magneudóttur oddvitann.
Flokkur fólksins fékk 2.509 atkvæði og var 32 þeirra breytt eða 1,28 prósent.
Aðrir flokkar komu ekki einstaklingum að í borgarstjórn.