Jason Scott, eigandi og stjórnandi fyrirtækisins Icetor ehf., sem á og rekur fyrsta bitcoin-hraðbankann sem settur hefur verið upp á Íslandi, vill að íslensk stjórnvöld bíði með það í tvö ár að regluvæða með nokkrum hætti starfsumhverfi stafrænna rafmynta og sýndarfjár á borð við bitcoin. Þess í stað leggur Scott, sem opnaði bitcoin-hraðbankann sinn hérlendis í vor, til að nánara samtal eigi sér stað milli rafmyntaiðnaðarins, sem er í miklum vexti á Íslandi, og löggjafans. Hann varar við því að strangar reglur muni gera það að verkum að iðnaðurinn muni leita til annarra landa þar sem regluverkið er hagstæðara. Nefnir hann Möltu, Eistland og Sviss sem dæmi um slík lönd.
Þá fer Scott fram á að settur verði veltuþröskuldur og þau fyrirtæki sem fari ekki yfir hann þurfi ekki að gangast undir samskonar upplýsingaskyldu og þau sem stærri eru.
Þetta kemur fram í umsögn Scott um frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að breyta lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með þeim hætti að þjónustuveitendur þeirra sem stunda viðskipti og fyrirhuguð viðskipti með rafeyri og sýndarfjár verði gert skylt að tilkynna grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka til lögreglu. Þá þurfa þeir sem þjónusta rafmyntir og sýndarfé að vera skráningarskyldir aðilar hjá Fjármálaeftirlitinu og verða þá um leið eftirlitsskyldur aðili.
Liggur á að breyta lögunum
Í greinargerð frumvarpsins segir: „Sýndarfjárviðskipti fara fram utan hins hefðbundna fjármálakerfis og geta aðilar sem stunda peningaþvætti, hryðjuverkasamtök eða hópar með auðveldum hætti millifært fjármuni yfir landamæri eða innan sýndarfjármarkaðarins nafnlaust og án þess að færslur þeirra sæti athugun. Til að stemma stigu við refsiverðri starfsemi sem kann að þrífast í skjóli þess nafnleysis sem fylgir sýndarfjárviðskiptum er nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna svo að framangreindir þjónustuveitendur falli undir lögin.“
Hætt sé við því að verði slík starfsemi látin óátalin þar til ný heildarlög um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem leggja á fram í haust, verði samþykkt muni margir aðilar sjá sér hag í því að koma upp slíkri starfsemi áður en það frumvarp nái fram að ganga og geti starfað eftirlitslaust í marga mánuði. „Reynslan sýnir að fjölgun þjónustuveitenda sýndarfjár er hröð. Á heimsvísu voru hraðbankar fyrir sýndarfé samtals 951 þann 1. janúar 2017, 2.048 þann 1. janúar 2018 og 2.534 þann 20. mars 2018. Það er því mikilvægt að bregðast við með skjótum hætti og gera þessa þjónustuveitendur tilkynningar- og eftirlitsskylda.“
Bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið styðja frumvarpið og leggja áherslu að það verði samþykkt.
Fleiri hagsmunaaðila skiluðu inn umsóknum
Fleiri en Scott hafa skilað inn umsögn um frumvarpið. Þar á meðal Rafmyntraráð, sem gerir ýmiskonar athugasemdir við frumvarpið og framsetningu dómsmálaráðherra við kynningu á því. Í umsögn ráðsins segir m.a.: „Samkvæmt Europol eru sjálfsalar sem sýsla með bæði sýndarfé og reiðufé helsta áskorunin innan sýndarfjárgeirans þegar kemur að peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Við viljum þó benda á að ekki þarf að beita bláköldu banni á slíkar sjálfsalaþjónustur, þar sem hægt er að beita tækni sem passar upp á að þessari löggjöf sé fylgt. Til dæmis ættu sjálfsalar sem taka við debit og kreditkortum að sitja við annað borð en sjálfsalar sem taka við reiðufé, þar sem um ræðir rafeyrir sem er gefin út af eftirlitsskyldum stofnunum, sem hafa þá þegar sinnt athugun á peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.“
Fyrirtækið Skiptimynt ehf., sem rekur skiptimarkað þar sem viðskiptavinum gefst kostur á að eiga viðskipti með rafmyntir með því að setja inn sölu- og kauptilboð, sendi einnig inn umsögn. Það gerir athugasemdir við afleiðingar frumvarpsins fyrir sig í ljósi þess að fyrirtækið tekur ekki við reiðufé heldur einungis millifærslum í íslenskum krónum úr bönkum, þar sem peningaþvættisathugun hefur þegar farið fram. „Helst ætti löggjafinn að reyna að skapa lagaramma sem er hliðhollur rafmynta- og blockchain tækninni. Skýra ætti hvernig greiða eigi skatta af hagnaði vegna viðskipta með rafmyntir. Hvernig eigi að greiða skatta af hagaði vegna námugraftrar rafmynta. Skýra hvenær frumútgáfa rafmynta (Initial Coin Offering, ICO) falli undir verðbréfaútgáfu og lög um verðbréfaviðskipti og hvenær um er að ræða stafræn auðkenni (Utility token). Tryggja með lagasetningu rétt rafmyntafyrirtækja til að njóta bankaþjónustu, þannig að bankar geti ekki lokað einhliða á bankaviðskipti við rafmynta- og blockchain fyrirtæki, sem meðhöndla ekki reiðufé. Í framhaldi af slíkri heildstæðri lagasetning á þessu sviði munu erlend stórfyrirtæki á sviði rafmynta og blockchain leitast við að finna stað fyrir höfuðstöðvar sínar á Íslandi, þar sem löggjöf væri til staðar, væri skýr og ekki letjandi.“
Skiptimynt ehf. segir að lagabreytingin, sem felur meðal annars í sér að fyrirtæki á rafmyntarmarkaði þurfi að taka þátt í að greiða kostnað við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, muni stefna efnahag fyrirtækisins í voða, en velta þess var undir tveimur milljónum króna í fyrra og enginn sem kemur að fyrirtækinu fékk greidd laun á því ári. Það mælist til þess í umsögn sinni að „einhver aðlögun verði á þessu gjaldi og að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki sem hafa veltu undir ákv. viðmiðum, tekjur undir ákv. viðmiðum, hagnað undir ákv. viðmiðum eða fjölda starfsmanna undir ákv. viðmiðum verði undanskildir þessari gjaldheimtu.“