Mjólkursamsalan var í dag í Héraðsdómi Reykjavíkur dæmd til að greiða sekt að fjárhæð alls 480 milljónir króna vegna misnotkunar á markaðsráðandi stöðu. Þannig seldi MS keppinautum sínum grundvallarhráefni til framleiðslu á mjólkurvörum, það er að segja hrámjólk, á hærra verði en MS sjálft og tengdir aðilar, sem eru Kaupfélag Skagfirðinga og dótturfélag þess, þurftu að greiða. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samkeppniseftirlitinu en dómurinn hefur ekki verið birtur á heimasíðu dómstólsins.
Dómurinn mun hafa litið til þess við ákvörðun á sektarfjárhæðinni að brot MS hafi verið alvarlegt og staðið í langan tíma. Hafi brotið varðað vinnslu mikilvægrar neysluvöru og aðgerðir MS verið fallnar til að skaða samkeppni og neytendur með alvarlegum hætti. Þá var litið til þess að um ítrekað brot var að ræða. Í dóminum er jafnframt fallist á að MS hafi veikt samkeppnisstöðu smærri keppinauta, til dæmis Mjólkurbúsins Kú, og haft bein áhrif á vöxt þeirra.
Jafnframt staðfestir dómurinn úrskurð áfrýjunarnefndar um að MS hafi brotið upplýsingaskyldu samkeppnislaga með því að halda mikilvægu gagni frá Samkeppniseftirlitinu. Í dóminum segir um þetta: „Með háttalagi sínu torveldaði aðalstefnandi rannsókn málsins og því þurfti að hefja rannsóknina að nýju“. Þykir fjárhæð sektarinnar, 40 milljónir, hæfileg.
Mjólkursamsalan áfrýar
Mjólkursamsalan hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna dóms Héraðsdóms Reykjavíkur:
„Vegna máls Samkeppniseftirlitsins gegn MS til ógildingar á úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála vil MS taka fram.
Eftir að hafa yfirfarið forsendur dómsins telur MS óhjákvæmilegt að áfrýja niðurstöðunni sem fer þvert gegn úrskurði fjölskipaðs stjórnvalds. MS telur sem fyrr að fyrirtækið hafið starfað í samræmi við skýr ákvæði búvörulaga og að engin brot hafi verið framin. Var það niðurstaða fjölskipaðrar áfrýjunarnefndar samkepnnismála, sem er lokaniðurstaða á stjórnsýslustigi og MS telur vera rétta.“