Ólafur Þ. Harðarson prófessor í stjórnmálafræði hefur greint þá stöðu sem honum finnst líklegust í meirihlutamyndun í Reykjavík. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir Ólafur að hann telji líkegra að Viðreisn fari með Samfylkingu, Vinstri grænum og Pírötum en Sjálfstæðisflokki, Miðflokki og Flokki fólksins.
Fyrir þessu nefnir Ólafur röksemdafærslu í fimm liðum.
Í fyrsta lagi að Viðreisn sé nær þeim fyrrnefndu í skipulagsmálum. Sjálfsagt nær Sjálfstæðisflokki um markaðslausnir, en skipulagsmálin hafi verið fyrirferðarmeiri í kosningabaráttunni.
Þá nefnir Ólafur að samkvæmt Gallup kom 51 prósent af fylgi Viðreisnar núna frá Bjartri framtíð og Samfylkingu 2014 (27% frá BF og 24% frá S). Um 17 prósent komu frá Sjálfstæðisflokki, 7 prósent frá Vinstri grænum, 5 prósent frá Pírötum, 4 prósent frá Framsókn og 15 prósent frá þeim sem kusu ekki árið 2014. „Þessi hegðun kjósenda er á skjön við þá mynd að Viðreisn sé bara klofningur úr D. 63% kjósenda Viðreisnar komu frá þeim sem kusu fráfarandi meirihluta 2014,“ skrifar Ólafur.
Í þriðja lagi segir hann kjósendaprófíla Viðreisnar í Reykjavík, til dæmis aldur, skólagöngu og búsetu í hverfum, miklu líkari prófílum Samfylkingar og Pírata en Sjálfstæðisflokksins, Miðflokksins og Flokks fólksins.
Ólafur nefnir einnig að margir forystumenn Viðreisnar séu vissulega „flóttamenn“ úr Sjálfstæðisflokki. „En reynslan sýnir að oft er lítill kærleikur milli fyrrum flokksfélaga þegar leiðir hafa skilið. Td. verður fróðlegt að sjá hvað gerist í Vestmannaeyjum.“
Síðast segir Ólafur borgarstjórastólinn vera samningsatriði. Hann heldur að bæði Dagur og Eyþór vildu frekar vera í meirihluta en minnihluta, jafnvel þó þeir fengju ekki þann stól. Dagur hafi verið formaður borgarráðs 2010 til 2014, en Jón Gnarr borgarstjóri. Besti flokkurinn hafi reyndar verið stærri en Samfylking.
„En allt er sosum opið og afar áhugavert að sjá hvernig kapallinn spilast,“ segir Ólafur að lokum.