Þórdís Lóa Þórhallsdóttir oddviti Viðreisnar segir flokkinn í lykilstöðu í Reykjavík sem mikilvægt sé að spila vel úr. Í stöðuuppfærslu á Facebook segir hún að þau ætli að nýta stöðu sína vel og hvergi hvika frá þeira helstu stefnumálum.
„Við munum skoða málin og fara okkur að engu óðslega því slíkt væri einfaldlega ekki í anda okkar sem boðum heiðarleika, gagnsæi og raunhæfar lausnir,“ segir Þórdís Lóa.
Byrjað er að máta saman hvernig meirihlutasamstarf Viðreisnar og þeirra þriggja flokka sem voru í fráfarandi meirihluta í Reykjavík gæti litið út. Viðmælendur Kjarnans segja að óformlegir fundir hafi átt sér stað milli lykilmanna í Samfylkingu og Viðreisnar.
Þá hefur verið greint frá því að Þórdís hafi einnig hitt Eyþór Arnalds oddvita Sjálfstæðisflokksins í gær, en flokkarnir í fráfarandi meirihluta, Samfylking, Vinstri græn og Píratar, hafa allir gefið út að þeir vilji ekki starfa með Sjálfstæðisflokknum. Oddvitar þessara flokka hittst á sunnudag til að leggja línur fyrir komandi viðræður.
Áhrifafólk í Sjálfstæðisflokknum hefur einnig verið duglegt að hafa samband við fólk innan Viðreisnar til að reyna að ýta athygli flokksins frekar að sér. Í þeim óformlegu samtölum hefur verið lögð áhersla á að finna lausnir á málaflokkum þar sem stefnur flokkanna eru nánast á öndverðu meiði svo hægt sé að ná saman um nýjan meirihluta.
Opinberar yfirlýsingar Viðreisnar eru þær að flokkurinn sé opinn fyrir því að vinna með öllum. Málefnalega er þó ljóst að mun einfaldara verður fyrir flokkinn að fara í samstarf með fráfarandi meirihluta en Sjálfstæðisflokknum, Miðflokki og Flokki fólksins sem töluðu t.d. gegn borgarlínu og yfirstandandi aðferðarfræði við þéttingu byggðar í kosningunum.
Kæru vinir nær og fjær! Ætli það sé ekki kominn tími á smá stöðuuppfærslu frá frambjóðandanum, eða kannski...
Posted by Þórdís Lóa Þórhallsdóttir on Tuesday, May 29, 2018