Davíð Oddsson ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra er launahæsti fjölmiðlamaður Íslands samkvæmt tekjublaði DV. Nema mánaðartekjur hans rúmlega 5,9 milljónum króna og hafa þær hækkað um 200 þúsund frá því í fyrra en árið 2016 námu tekjur Davíðs um 3,9 milljónum.
Haraldur Johannessen einnig ritstjóri Morgunblaðsins er sá næst launahæsti í bransanum með rúmlega 4,5 milljónir á mánuði.
Björn Ingi Hrafnsson fyrrverandi eigandi Pressunnar og DV vermir þriðja sætið á lista launahæstu fjölmiðlamannanna með 2,6 milljónir á mánuði og á eftir honum kemur Óskar Magnússon fyrrverandi útgefandi Árvakurs með tæplega 1,9 milljónir.
Næstir á lista eru:
Sverrir Heimisson auglýsingastjóri Viðskiptablaðsins - 1.864
Logi Bergmann Eiðsson fyrrverandi fréttaþulur og þáttastjórnandi - 1.853
Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri - 1.790
Kristín Þorsteinsdóttir aðalritstjóri Fréttablaðsins - 1.787
Pétur Jóhann Sigfússon sjónvarpsmaður - 1.451
Egill Helgason sjónvarpsmaður - 1.349
Auðunn Blöndal útvarps- og sjónvarpsmaður - 1.326
Gjörbreyting á landslagi fjölmiðla árið 2017
Í upphafi árs 2017 var skipuð nefnd sem hafði það hlutverk að skila tillögum um hvernig bæta mætti rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi. Á meðan að sú nefnd starfaði urðu mestu breytingar sem orðið hafa á íslensku fjölmiðlalandslagi í áratugi. Jafnvel frá upphafi.
Á einu ári lagði það dagblað sem hafði næst mesta útbreiðslu upp laupana, ein af stærstu fjölmiðlasamsteypum landsins liðaðist í sundur og hluti hennar fór í þrot, stærsta einkarekna fjölmiðlafyrirtæki landsins var skipt upp og skilin milli fjarskipta og fjölmiðla urðu enn óskýrari. Svo fátt eitt sé nefnt.
Fréttatíminn hvarf
Fyrstu stóru sviptingarnar á árinu 2017 urðu strax í febrúar þegar greint var frá því að fjárhagsleg endurskipulagning á fríblaðinu Fréttatímanum stæði yfir. Tilkynningin kom mörgum á óvart þar sem nýir eigendur, undir forystu Gunnars Smára Egilssonar, höfðu keypt allt hlutafé í miðlinum í nóvember 2015 og blásið til mikillar sóknar með ráðningu á reyndu starfsfólki og fjölgun útgáfudaga úr einum í viku í þrjá í viku.
Í byrjun apríl var ljóst að það stefndi í óefni. Gunnar Smári tilkynnti þá að hann væri hættur afskiptum af útgáfunni. Starfsmenn höfðu á þessum tíma ekki fengið greidd laun og erfiðlega gekk að fá nokkrar upplýsingar frá stjórnendum um hvort að slíkt stæði til.
Fréttatíminn kom út í síðasta sinn föstudaginn 7. apríl 2017. Skömmu áður hafði verið greint frá því að blaðið hefði tapað 151 milljónum króna á árinu 2016. Tapið hafði tífaldast milli ára.
Útgáfufélag Fréttatímans var tekið til gjaldþrotaskipta í júlí og kröfur í búið námu 236 milljónum króna.
Sápuóperan í kringum Pressuna
Mesta dramatíkin á fjölmiðlamarkaði í fyrra var í kringum Pressusamstæðu Björns Inga Hrafnssonar, sem hafði árin á undan farið mikinn og sankað að sér allskyns fjölmiðlum oft með skuldsettum yfirtökum. Síðasta yfirtakan var á tímaritaútgáfunni Birtingi í lok árs 2016 og eftir hana voru tæplega 30 miðlar í Pressusamstæðunni. Þeirra þekktastir voru DV, DV.is, Eyjan, Pressan, sjónvarpsstöðin ÍNN og tímaritin Vikan, Gestgjafinn, Nýtt líf og Hús og híbýli.
Í apríl var tilkynnt um að hlutafé Pressunnar yrði aukið um 300 milljónir króna og að samhliða myndi Björn Ingi stíga til hliðar. Sá aðili sem ætlaði að koma með mest fé inn í reksturinn var Fjárfestingafélagið Dalurinn, félag í eigu Róberts Wessman, Árna Harðarsonar og þriggja annarra manna. Með þeim var hópur annarra fjárfesta og svo virtist sem Pressusamstæðunni væri borgið.
Gjaldþrot og kærur vegna meintra lögbrota
Nýju fjárfestarnir komust þó fljótlega að því að mun meira vantaði til þess að rétta af reksturinn en þeir höfðu talið áður. Um miðjan maí voru þeir hættir við aukna fjárfestingu en áttu þó enn meirihluta hlutafjár í samstæðunni. Á sama tíma var kaupum Pressunnar á Birtingi rift og Dalurinn keypti í kjölfarið allt hlutafé þess fyrirtækis. Það útgáfufélag gefur meðal annars út Mannlíf í samstarfi við Kjarnann.
Dramatíkinni var þó hvergi nærri lokið. Í byrjun september var tilkynnt að Sigurður G. Guðjónsson hæstaréttarlögmaður hefði ásamt hópi fjárfesta keypt
flesta lykilmiðla Pressusamstæðunnar með hlutafjáraukningu. Um var að ræða DV, DV.is, Pressuna, Eyjuna, Bleikt, ÍNN og tengda vefi. Eftir í gamla eignarhaldsfélaginu voru skildir héraðsfréttamiðlar. Forsvarsmenn Dalsins sögðu að þeir hefðu ekki vitað um þennan gjörning fyrr en hann var afstaðinn.
Óljóst er hvort að ofangreind viðskipti muni halda. Pressan var tekin til gjaldþrotaskipta í desember 2017 og skiptastjóri skipaður yfir búið. Grunur er uppi um lögbrot í starfsemi félagsins, og hefur ný stjórn kært Björn Inga og Arnar Ægisson, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækisins, til héraðssaksóknara vegna lögbrota. Þá verður skoðað hvort kröfuhöfum Pressunnar hafi verið mismunað og hvort það eigi að rifta sölu á miðlum félagsins.
365 og Vodafone runnu að mestu saman
Stærstu tíðindin á fjölmiðlamarkaði á þessu mikla breytingarári urðu þó líkast til um miðjan mars 2017, þegar tilkynnt var um að Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, hefði undirritað samning um kaup á öllum eignum og rekstri 365 miðla, að undanskildum eignum er varða útgáfu Fréttablaðsins. Þeir miðlar sem selja átti yfir frá 365 miðlum voru Stöð 2 og tengdar sjónvarpsstöðvar, útvarpsrekstur fyrirtækisins (t.d. Bylgjan, X-ið og FM957) og fréttavefurinn Vísir.is. Fréttastofa 365 fylgdi með í kaupunum, en hún er ein stærsta fréttastofa landsins og sú eina sem heldur úti daglegum sjónvarpsfréttatíma utan fréttastofu RÚV.
Samkeppniseftirlitið samþykkti samruna Fjarskipta og flestra miðla 365 með skilyrðum í byrjun október síðastliðins. Keyptu eignirnar færðust yfir til Fjarskipta 1. desember 2017.
Næst stærsta einkarekna fjölmiðlasamsteypa landsins, Árvakur sem gefur út Morgunblaðið og tengda miðla, gekk líka í gegnum breytingar í fyrra. Fyrirtækið fór á fullu í útvarpsrekstur og Eyþór Arnalds, nú frambjóðandi í leiðtogakjöri Sjálfstæðisflokksins fyrir komandi borgarstjórnarkosningar, keypti rúmlega fjórðungshlut í Árvakri.
Auk þess var greint frá því í október að Árvakur og Síminn myndu framleiða í sameiningu innlent sjónvarpsefni og dagskrárgerð á árinu 2017.