Fyrir þinginu, sem á samkvæmt starfsáætlun aðeins þrjá þingfundi eftir, liggja nokkur afar umfangsmikil mál. Persónuverndarfrumvarpið, veiðigjaldamálið og einnig síðari umræða um fjármálaáætlun. Öll málin munu krefjast mikillar umræðu, og þá sér í lagi veiðigjaldafrumvarpið sem er sérstaklega umdeilt og herma heimildir Kjarnans að stjórnarandstaðan sé nokkuð samstillt þegar kemur að áætlunum um að kæfa hækkun veiðigjaldsins, jafnvel með málþófi. Fleiri mál eru eftir, misumfangsmikil, eins og til dæmis umræða um Byggðaáætlun næstu fimm ára.
Heimildir Kjarnans herma einnig að allir þingmenn geri sér grein fyrir að lengja þurfi yfirstandandi þing, en vonast er til að hægt verði að ljúka því fyrir þjóðhátíðardaginn 17. júní.
Öll málin verða að klárast á þessu þingi. Núgildandi veiðigjaldaákvæði renna út þann 31. ágúst næstkomandi og verði ekkert gert þýðir það að engin veiðigjöld verða innheimt síðustu fjóra mánuði ársins. Persónuverndarfrumvarpið, sem er 147 blaðsíður að lengd, er innleiðing á Evrópulöggjöf sem er hluti af EES-samningnum. Evrópsku reglurnar hafa þegar tekið gildi sem þýðir að það liggur á að taka þær upp í íslenskan rétt. Seinni umræða um fjármálaáætlunina er síðan lögbundin, en þyrfti tæknilega séð ekki að taka svo langan tíma - þó líklegra sé að svo verði og færa megi rök fyrir að slíkt sé faglegra en hitt.
Ráðgert er að taka veiðigjaldafrumvarpið fyrir á morgun, en það var ákveðið á fundi þingflokksformanna með Steingrími J. Sigfússyni forseta Alþingis í morgun.
Eldhúsdagsumræður á Alþingi fara fram í kvöld og hefjast klukkan 19.30. Þrír þingmenn frá hverjum flokki munu taka til máls.