Ármann Kr. Ólafsson, oddviti Sjálfstæðismanna í Kópavogi, hefur tilkynnt um að hann og Birkir Jón Jónsson, oddviti Framsóknarflokksins í sveitarfélaginu, hafi ákveðið að hefja meirihlutaviðræður um myndun nýs meirihluta í Kópavogi.
Sjálfstæðismenn voru í meirihluta á síðastliðnu kjörtímabili með Bjartri framtíð. Sá flokkur bauð nú fram með Viðreisn undir merkjum BF/Viðreisnar, en oddvitinn var sá sami, Theodóra Þorsteinsdóttir.
Talið var nær öruggt að flokkarnir myndu endurnýja samstarf sitt ef mögulegt væri og var vilji til þess hjá oddvitum þeirra eftir sveitastjórnarkosningarnar í lok maí. Í þeim fengu Sjálfstæðismenn fimm borgarfulltrúa kjörna en BF/Viðreisn tvo, sem dugði fyrir rúmum meirihluta í ellefu manna bæjarstjórn Kópavogs.
Þrír bæjarfulltrúar úr röðum Sjálfstæðisflokks lýstu hins vegar yfir andstöðu við að starfa með BF/Viðreisn. Theodóra sagði við Morgunútvarp Rásar 2 í gærmorgun að það væru persónur sem væru að flækjast fyrir þeim, ekki málefni.