Viðbætur við siðareglur þingmanna voru samþykktar á Alþingi rétt í þessu með öllum greiddum atkvæðum.
Þingsályktunartillaga var lögð fram á Alþingi þar sem lagt var til að gerðar yrðu tvær breytingar á siðareglum fyrir alþingismenn. Fyrsti flutningsmaður var Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis. Þverpólitísk sátt ríkti um málið þar sem flutningsmenn voru öllum flokkum.
Andrés Ingi Jónsson þingmaður Vinstri grænna segir á facebook-síðu sinni að viðbótin sé mikilvæg viðbrögð við #metoo og áskorun kvenna í stjórnmálum undir heitinu „Í skugga valdsins“.
Viðbót við siðareglur þingmanna var samþykkt rétt í þessu með öllum greiddum atkvæðum. Mikilvæg viðbrögð við #metoo og...
Posted by Andrés Ingi á þingi on Tuesday, June 5, 2018
Í fyrsta lagi var lagt til að nýjum staflið yrði bætt við sem segir að alþingismenn verði að leggja sig fram um að skapa í störfum sínum heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan og hvarvetna þar sem þeir sinna störfum sínum þar sem hafnað er hvers konar kynferðislegri eða kynbundinni áreitni, einelti eða annarri vanvirðandi framkomu.
Í öðru lagi var lagt til að á eftir sjöundu grein siðareglnanna kæmi ný grein sem hljóði svo: „Þingmenn skulu ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega eða kynbundna áreitni, leggja þá í einelti eða koma fram við þá á annan vanvirðandi hátt.“
Rík samstaða í #metoo-umræðu
Í greinargerð með tillögunni segir að fljótlega eftir að Alþingi kom saman eftir alþingiskosningarnar í lok október síðastliðinn hafi karlkynsþingmenn komið þeirri áskorun til forsætisnefndar Alþingis að haldin yrði ráðstefna í formi „rakarastofu“ sem gæfi körlum og konum á þingi tækifæri til að eiga opinskáar samræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna.
Að beiðni Albertínu Friðbjargar Elíasdóttur alþingismanns setti forseti Alþingis á dagskrá þingfundar 19. desember 2017 sérstaka umræðu um „í skugga valdsins: metoo“. Til andsvara var dómsmálaráðherra. Þingmenn úr öllum þingflokkum og af báðum kynjum tóku þátt í umræðunum. Umræðan tók til samfélagsins alls og var ekki einskorðuð við stjórnmálin. Ræðumenn fordæmdu einróma ríkjandi ástand og áréttuðu mikilvægi þess að karlmenn hefðu frumkvæði að bættu hugarfari meðal karla og stuðluðu þannig að betra samfélagi. Var rík samstaða meðal ræðumanna um að hafna hvers konar ofríki og ofbeldi í garð kvenna.
Alþingi ekki hefðbundinn vinnustaður
Í tillögunni segir enn fremur að Alþingi sé ekki hefðbundinn vinnustaður sem sætir stjórn tiltekins vinnuveitanda og eigi vinnuverndarlöggjöf því ekki við um Alþingi með sama hætti og um venjulega vinnustaði. Þau markmið sem búa að baki jafnréttis- og vinnuverndarlöggjöf, um að gera fólki kleift að sinna starfi sínu án þess að eiga á hættu að þurfa að þola kynferðislega áreitni og stuðla þannig að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi, eigi þó jafn vel við um alþingismenn, sem og starfsmenn og gesti þingsins, og aðra. Því sé nauðsynlegt að skýrlega liggi fyrir hvernig eigi að fyrirbyggja og bregðast við kynferðislegri áreitni á Alþingi ekki síður en á venjulegum vinnustöðum.
„Tilgangur siðareglna fyrir alþingismenn er að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra, svo og tiltrú og traust almennings á Alþingi. Í þessu felst jafnframt að stuðla að heilbrigðu starfsumhverfi þjóðkjörinna fulltrúa og um leið að þingmenn beri virðingu fyrir starfi sínu, samherjum sínum og mótherjum og öðrum, þ.m.t. þeim sem erindi eiga inn á starfsvettvang þeirra og gagnvart þeim sem þingmenn eiga samskipti við í störfum sínum utan þings. Það er því eðlilegt og réttmætt, í ljósi þeirra krafna sem fram hafa komið, að í siðareglum fyrir alþingismenn komi fram sú meginregla að þingmenn skuldbindi sig til þess að leggja sitt af mörkum til að skapa heilbrigt starfsumhverfi innan þings sem utan, sem sé laust við kynbundna og kynferðislega áreitni, einelti og aðra ótilhlýðilega framkomu. Jafnframt að það sé skylda hvers og eins þingmanns að hafna slíku hátterni og að þingmenn skuli ekki sýna öðrum þingmönnum, starfsmönnum þingsins eða gestum kynferðislega áreitni eða ofbeldi af neinu tagi, eða aðra vanvirðandi framkomu,“ segir í tillögunni.
Markmið breytinganna er, samkvæmt tillögunni, að það komi fram með skýrum hætti að gildandi siðareglum alþingismanna er ætlað að stuðlað að öruggu og heilbrigðu starfsumhverfi innan þings þar sem hvers konar áreitni, kynferðislegri eða kynbundinni, og annarri vanvirðandi framkomu er afdráttarlaust hafnað. Jafnframt er þá vísað til hátternis þingmanns gagnvart öðrum þingmönnum, starfsmönnum Alþingis og gestum í starfi hans á Alþingi eða á vegum þess sem þjóðkjörins fulltrúa.