Nokkuð breið pólitísk sátt var um það í meirihluta efnahags- og viðskiptanefndar að undanskilja fyrirtæki sem sýsla með rafmyntir eða annars konar sýndarfé frá greiðslu 700 þúsund króna árgjalds vegna opinbers eftirlits Fjármálaeftirlitsins með fjármálafyrirtækjum. Slík fyrirtæki þurfa þó að skrá sig hjá Fjármálaeftirlitinu þótt þeirri skráningu fylgi ekki kostnaður. Eini flokkurinn sem styður ekki frumvarpið eru Píratar.
Þetta kemur fram í nefndaráliti hennar þegar nefndin afgreiddi frumvarp Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra um að breyta lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka með þeim hætti að þjónustuveitendur þeirra sem stunda viðskipti og fyrirhuguð viðskipti með rafeyri og sýndarfjár verði gert skylt að tilkynna grun um peningaþvætti eða fjármögnun hryðjuverka til lögreglu úr nefnd í gær.
Breytingin er tilkomin eftir að nefndinni var bent á að mörg af þeim fyrirtækjum sem fáist við þjónustu af þessu tagi séu „lítil sprotafyrirtæki með fáa starfsmenn og að gjald af þessari fjárhæð gæti reynst þeim mjög íþyngjandi. Nefndin telur að almennt beri að virða þá meginreglu að þeir sem sæta eftirliti á fjármálamarkaði skuli standa straum af kostnaði við eftirlitið. Þrátt fyrir það telur nefndin mikilvægt að leggja ekki stein í götu lítilla fyrirtækja sem eru að stíga sín fyrstu skref á markaði þar sem ör tækniþróun og nýsköpun ráða ríkjum, einkum þegar ekki liggur fyrir hver raunverulegur kostnaður af eftirlitinu verður.“
Liggur á að samþykkja frumvarpið
Kjarninn fjallaði um frumvarpið í lok síðasta mánaðar. Í greinargerð þess segir: „Sýndarfjárviðskipti fara fram utan hins hefðbundna fjármálakerfis og geta aðilar sem stunda peningaþvætti, hryðjuverkasamtök eða hópar með auðveldum hætti millifært fjármuni yfir landamæri eða innan sýndarfjármarkaðarins nafnlaust og án þess að færslur þeirra sæti athugun. Til að stemma stigu við refsiverðri starfsemi sem kann að þrífast í skjóli þess nafnleysis sem fylgir sýndarfjárviðskiptum er nauðsynlegt að útvíkka gildissvið laganna svo að framangreindir þjónustuveitendur falli undir lögin.“
Hætt sé við því að verði slík starfsemi látin óátalin þar til ný heildarlög um peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, sem leggja á fram í haust, verði samþykkt muni margir aðilar sjá sér hag í því að koma upp slíkri starfsemi áður en það frumvarp nái fram að ganga og geti starfað eftirlitslaust í marga mánuði. „Reynslan sýnir að fjölgun þjónustuveitenda sýndarfjár er hröð. Á heimsvísu voru hraðbankar fyrir sýndarfé samtals 951 þann 1. janúar 2017, 2.048 þann 1. janúar 2018 og 2.534 þann 20. mars 2018. Það er því mikilvægt að bregðast við með skjótum hætti og gera þessa þjónustuveitendur tilkynningar- og eftirlitsskylda.“
Bæði Seðlabanki Íslands og Fjármálaeftirlitið styðja frumvarpið og leggja áherslu að það verði samþykkt.
Vildi tveggja ára biðtíma
Ýmsir aðilar sem starfa á þessum markaði komu fyrir nefndina og skiluðu umsögnum um frumvarpið. Einn þeirra, Jason Scott, eigandi og stjórnandi fyrirtækisins Icetor ehf., sem á og rekur fyrsta bitcoin-hraðbankann sem settur hefur verið upp á Íslandi, vildi að íslensk stjórnvöld bíði með það í tvö ár að regluvæða með nokkrum hætti starfsumhverfi stafrænna rafmynta og sýndarfjár á borð við bitcoin.
Þess í stað lagði Scott, sem opnaði bitcoin-hraðbankann sinn hérlendis í vor, til að nánara samtal eigi sér stað milli rafmyntaiðnaðarins, sem er í miklum vexti á Íslandi, og löggjafans. Hann varar við því að strangar reglur muni gera það að verkum að iðnaðurinn muni leita til annarra landa þar sem regluverkið er hagstæðara. Nefnir hann Möltu, Eistland og Sviss sem dæmi um slík lönd.
Þá fer Scott fram á að settur yrði veltuþröskuldur og þau fyrirtæki sem fari ekki yfir hann þurfi ekki að gangast undir samskonar upplýsingaskyldu og þau sem stærri eru.
Nefndinni þótti ekki tilefni til að taka tillit til athugasemda Scott.