Engin greining fór fram innan sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins á því hvernig boðuð lækkun veiðigjalda, sem lögð var til í frumvarpi atvinnuveganefndar í síðustu viku, myndi skiptast niður á útgerðir. Þrátt fyrir að hugtakið „smærri útgerðir“ sé notað í greinargerð sem fylgir frumvarpinu þá er ekki hægt að fá svar við því hjá ráðuneytinu hver skilgreiningin á „smærri útgerðum“ sé.
Lækkun veiðigjalda hefði getað orðið meiri en 2,6 milljarðar króna, en samkvæmt greinargerð frumvarpsins var búist við því að áhrifin á tekjur ríkissjóðs á yfirstandandi almanaksári verði lækkun upp á 1,7 milljarða króna. Tekjurnar sem ríkissjóður átti að innheimta samkvæmt fjárlögum voru tíu milljarðar króna en eftir lækkunina yrðu þær 8,3 milljarðar króna.
Ekkert verður þó af lækkuninni eftir að samkomulag náðist um það seint í gærkvöldi milli stjórnar og stjórnarandstöðu að framlengja lög um veiðigjöld óbreytt.
Í Fréttablaðinu í vikunni kom fram að samkvæmt útreikningum blaðsins fari 80 prósent lækkunarinnar til stærri útgerða, þ.e. þeirra sem greiða meira en 30 milljónir króna á ári í veiðigjöld. Þessar stóru útgerðir eru á sjötta tug talsins. Blaðið reiknaði það einnig út að um helmingur fyrirhugaðra breytinga á veiðigjöldum hefði lent í vasa tíu stærstu útgerða landsins.
Engin algild skilgreining á „smærri útgerðum“
Kjarninn beindi fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og spurði hvort það hefði látið greina hvernig ávinningur af lækkun veiðigjalda, sem lagður var til í frumvarpi atvinnuveganefndar miðvikudaginn 30. maí, skiptist á milli útgerða.
Í greinargerð frumvarpsins sagði að hækkun á persónuafslætti útgerða hefði „einkum gagnast smærri útgerðum“. Kjarninn beindi fyrirspurn til ráðuneytisins og spurði hver væri skilgreiningin á „smærri útgerðum“, hvaða aðrir stærðarflokkar af útgerðum séu skilgreindir og hvernig ávinningur af lækkun veiðigjalda skiptist á milli þeirra flokka?
Í svari ráðuneytisins segir að engin samræmd eða algild skilgreining sé til um hvað teljist til smærri útgerða í tilliti laga um veiðigjald. „Hins vegar má geta þess að í frumvarpi um endurákvörðun veiðigjalds eru þau fyrirtæki sem greiddu yfir 30 millj. kr. í veiðigjald á fiskveiðiárinu 2016/2017 undanskilin rétti til viðbótar persónuafsláttar samkvæmt frumvarpinu. Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Fiskistofu greiddu 25 fyrirtæki veiðigjald yfir þeirri fjárhæð.“