Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra segist ekki finna fyrir miklum áhuga á því í Garðabæ að „setja eina einustu krónu“ úr bæjarsjóði í að láta borgarlínu verða að veruleika.
Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag, þegar varaþingmaðurinn Sara Elísa Þórðardóttir Pírati spurði hann út í fyrirheit ríkisstjórnarinnar í stjórnarsáttmálanum þar sem segir að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.
Sara spurði Bjarna út í málið í ljósi ummæla hans í kosningasjónvarpi RÚV þar sem hann sagði borgarlínuna „tiltölulega óskilgreint fyrirbæri“ og vildi vita hvað hann hefði talið að fælist í því að styðja við borgarlínu þegar stjórnarsáttmálinn var saminn af honum sjálfum og öðrum. Sara spurði einnig hvort ráðherra hafi ekki áform um að veita verkefninu fjárhagslegan stuðning og ef ekki, í hverju sá stuðningur sem boðaður er í stjórnarsáttmálanum fólst.
Bjarni sagðist í annað sinn nú eiga aðild að ríkisstjórnum sem hafi viljað greiða fyrir betri almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og vilji að að samtal sé í samræmi við væntingar sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.
Bjarni sagði að þegar hann hins vegar settist niður með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu þá fái hann alveg óskaplega ólíka mynd eftir því við hvern hann talaði. „Ef maður til dæmis myndi renna sér inn í Garðabæ og tala þar við bæjarfulltrúa þá finnur maður ekki fyrir miklum áhuga á því að setja eina einustu krónu úr bæjarsjóði í að láta verkefnið verða að veruleika,“ sagði Bjarni.
Ef hann hins vegar færi inn í Hafnarfjörð þá finni hann fyrir allt annarri forgangsröðu en í þágu borgarlínu, fyrst þurfi að klára mislæg gatnamót við Reykjanesbrautina og tvöfalda hana suður í Keflavík áður en Hafnafjörður vilji fara að setja borgarlínu framar í forgangsröðina.
Í Reykjavík hins vegar heyri hann að sé fullur kraftur í málinu af hálfu borgarstjórans, en ekki af hálfu allra flokka í borginni. „Þar heyrir maður í fyrsta skipti talað um að það eigi að skattleggja borgarbúa fyrir verkefninu. Það er ekki það sama uppi á teningnum þegar maður fer í önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Bjarni.
Hann sagði þetta samtal skammt á veg komið. Ekki sé ágreiningur á milli flokka um að skynsamlegt sé að styðja við almenningssamgöngur en menn séu komnir fram úr sér með hugmyndir um 35 milljónir úr ríkissjóði á næstunni án heildstæðrar myndar.