Fasteignamat eigna Heimavalla, stærsta hagnaðardrifna leigufélags landsins sem á tæplega tvö þúsund íbúðir, hækkaði úr 44 milljörðum króna vegna ársins 2018 í 58 milljarða króna árið 2019, en fasteignamat vegna þess árs var birt í síðustu viku. Hækkunin er því upp á 14 milljarða króna.
Samkvæmt þessu hækkar fasteignamat á fermetraverð íbúða í eigu Heimavalla úr 240 þúsund krónum á fermetra í 318 þúsund krónur á fermetra. Það er hætta en áætlað markaðsvirði hvers fermetra var um síðustu áramót, en það var 308 þúsund krónur. Markaðsvirði er nær undantekningarlaust töluvert hærra en fasteignamat þegar um er að ræða eignir á Suðvesturhorni landsins. Markaðsvirði þeirra eigna sem Heimavellir eiga og þeirra sem eru í byggingu var 55,6 milljarðar króna í lok mars síðastliðins samkvæmt ársreikningi.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í kynningu sem framkvæmdastjóri Heimavalla hélt fyrir hluthafafund félagsins í gær, 8. júní. Þar er bent á að gengið 1,25 krónur á hlut á bréfum Heimavalla, sem var gengið í lok dags í gær, svaraði til fermetraverðs upp á 270 þúsund krónur á fermetra, sem væri lægri en bókfært verð á fermetra, sem sé 289 þúsund krónur á fermetra. Virði bréfa Heimavalla hefur lækkað síðan að árshlutareikningur félagsins var birtur.
Leigutekjur vaxa hratt
Í kynningunni segir að Heimavellir geri ráð fyrir því að leigutekjur félagsins vaxi úr 3,1 milljarði króna á árinu 2017 í rúmlega 4,3 milljarða króna á árinu 2020. Á sama tíma er þó gert ráð fyrir að fjöldi íbúða í eigu félagsins muni dragast saman, fara úr 1.968 um síðustu áramót í 1.904 í lok árs 2020.
Í kynningunni er einnig birt áætlun um að meðalstaða fjárfestingaeigna, sem eru húsnæði í útleigu eða byggingu í eigu Heimavalla, muni hækka úr 46,8 milljarða króna fyrir árið 2017 í 57,1 milljarða króna árið 2020, þrátt fyrir að íbúðum í eigu félagsins muni fækka.
Ríkið stærsti lánveitandinn
Kjarninn hefur fjallað ítarlega um Heimavelli undanfarnar vikur. Í maí var greint frá því að félagið sé að stærstum hluta fjármagnað með lánum frá Íbúðalánasjóði. Íbúðalánasjóður og Kadeco, annað félag í eigu ríkisins, eru líka þeir aðilar sem hafa selt Heimavöllum flestar eignir.
Lánin eru að hluta til veitt í samræmi við reglugerð Íbúðalánasjóðs frá árinu 2013 til sveitarfélaga, félaga og félagasamtaka sem ætlaðar eru til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum. Markmið þeirrar reglugerðar er að „stuðla að framboði á leiguíbúðum fyrir almenning á viðráðanlegum kjörum“.
Til að uppfylla skilyrði reglugerðarinnar mega félög sem fá slík lán ekki vera rekin í hagnaðarskyni né má greiða úr þeim arð. Heimavellir voru skráðir á markað í síðustu viku og ætla sér í kjölfarið að endurfjármagna lán sín hjá Íbúðalánasjóði, sem nema 18,6 milljörðum króna og eru rúmlega helmingur af skuldum félagsins, svo það geti greitt út arð.
Frá því að Heimavellir voru stofnaðir í febrúar 2015 hefur leiguverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 40 prósent.
Íbúðalánasjóður skoðar Heimavelli
Íbúðalánasjóður sendi seint í maí 20 leigufélögum sem eru með lán frá sjóðnum bréf þar sem kallar er eftir upplýsingum um verðlagningu leiguíbúða í þeirra eigu, og eftir atvikum um hækkanir á húsaleigu þeirra til leigutaka. Í bréfinu er kallað eftir svörum um hvort og þá hvernig skilyrðum reglugerðar um lán sjóðsins séu uppfyllt. Á meðal þeirra sem hafa fengið lán frá sjóðnum eru hagnaðardrifin leigufélög.
Á meðal þeirra félaga sem Íbúðalánasjóður hefur kallað eftir upplýsingum frá eru Heimavellir.