Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um hver það sé sem veiti „leyfi fyrir því að hálfnakið fólk nýtti Alþingishúsið í auglýsingaskyni og gengi þaðan á sama hátt og forseti Íslands og þingmenn gera við þingsetningu?“
Í fyrirspurninni er einnig farið fram á að Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, svari því hvort hann telji slíka notkun á þinghúsinu og þinghefðum sé til þess fallin að auka virðingu Alþingis og hvort að þetta leyfi tengist „stuðningi forseta Alþingis við málstað þeirra sem leyfið hlutu“?
Ekki náðist í Sigmund Davíð við vinnslu fréttarinnar. Líklega er ástæða þess að hann spyr um málið gjörningur sem var settur á svið í tilefni af opnun sýningarinnar Demoncrazy á Listahátíð Reykjavíkur í síðustu viku. Í honum gengu berbrjósta ungar konur frá Alþingishúsinu við Austurvöll að Listasafni Íslands til að „ögra þeirri jakkafataklæddu, miðaldra og karlkyns ímynd valdsins sem þær hafa alist upp við.“ Meðal annars stóðu konurnar í dyrum Alþingis er snýr að Austurvelli, en ljósmyndari mbl.is smellti mynd af konunum í þeim aðstæðum.. Áður hafði ljósmyndasýning af konunum opnað við Asuturvöll í tengslum við gjörninginn.
Sigmundur Davíð vill einnig fá að vita hvort að aðrir hópar geti vænt þess að fá leyfi fyrir sams konar viðburðum óháð því hvort forseti Alþingis er fylgjandi málstað þeirra eða ekki og spyr hvort þetta leyfi sé til marks um að „vænta megi frekari tilslakana á reglum um klæðaburð Alþingismanna?“
Fjórar fyrirspurnir
Umrædd fyrirspurn er ein af fjórum sem Sigmundur Davíð lagði fram í dag. Hinar þrjár snúa að uppbyggingu almenningssamgangna, kostnaði við ráðningar á aðstoðarfólki ráðherra í ríkisstjórninni og kostnaði við sérfræðingaráðgjöf ríkisstjórnarinnar.
Í fyrirspurninni um uppbyggingu almenningssamgangna er meðal annars spurt hvað sé átt við með „borgarlínu“, í hverju stuðningur ríkisstjórnar við borgarlínu muni felast og í hverju uppbygging almenningssamgangna sem vísað sé til í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar muni felast.
Sigmundur Davíð vill einnig m.a. fá að vita hversu marga aðstoðarmenn ráðherrar og ríkisstjórn hafi ráðið án auglýsingar, hvort að slíkir aðstoðarmenn hafi áður verið fleiri og hvernig forsætisráðherra ætli að jafna aðstöðumun ráðherra annars vegar, „sem njóta ríkulegs stuðnings ráðuneyta, stofnana og aðstoðarmanna, og stjórnarandstöðuþingmanna hins vegar, sem njóta ekki slíks stuðnings?“
Að endingu vill hann fá að vita hversu margir hafi verið ráðnir til að veita forsætisráðherra, ráðherrum í ríkisstjórn eða ríkisstjórninni í heild sérfræðiráðgjöf eða aðra aðkeypta þjónustu, að frátalinni veitinga- og ræstingaþjónustu, frá því að ríkisstjórnin tók til starfa, hvaða aðilar þetta hafi verið og hverjar greiðslur til þeirra séu.