Á kynningarfundi sem haldin var fyrir hluthafa VÍS í gær var kynnt tillaga um að lækka hlutafé í félaginu um 1,8 milljarð króna með því að greiða hluthöfum með hlutabréfum VÍS í Kviku banka. Tillagan verður tekin fyrir á hluthafafundi í tryggingafélaginu sem haldin verður 27. júní næstkomandi.
Verði tillögunni hrint í framkvæmd mun eiginfjárhlutfall VÍS fara úr 33,8 prósent í 31 prósent en gengishagnaður af sölu bréfanna í Kviku, sem á að fara frá á genginu 7,2 krónur á hlut, mun tekjufærast í rekstur félagsins.
Þetta kemur fram í kynningarglærum sem birt voru í Kauphöll Íslands í gærkvöldi. Stærstu eigendur VÍS eru þrír íslenskir lífeyrissjóðir og vogunarsjóðurinn Landsdowne partners.
VÍS er sem stendur langstærsti eigandi Kviku banka með 21,77 prósent eignarhlut. Fjórði stærsti eigandi bankans er félagið K2B fjárfestingar með 7,4 prósent hlut. Það félag er í eigu hjónanna Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur og Guðmundar Þórðarsonar, sem eiga 6,8 prósent hlut í VÍS í gegnum tvö félög, Heddu eignarhaldsfélag og áðurnefnt K2B fjárfestingar.
Kjarninn hefur greint ítarlega frá því máli á undanförnum dögum.
Í stjórn VÍS sitja Gestur Breiðfjörð Gestsson, Svanhildur Nanna Vigfúsdóttir, Jón Sigurðsson, Valdimar Svavarsson og Helga Hlín Hákonardóttir, sem er nýtekin við sem stjórnarformaður.
Háð samþykki FME og hluthafafundar
Í kynningarglærunum sem birtar voru í gær er samantekt þar sem fram kemur að vegferð þeirra tillagna sem stjórn VÍS hafi þegar samþykkt sé að „stefna að breytingu á fjármagnsskipan sem yrði í takt við það sem þekkist hjá tryggingafélögum á hinum Norðurlöndunum“. Gangi þessar tillögur eftir, mun eiginfjárhlutfall VÍS lækka hratt á næstu árum og fara úr 33,8 prósent í 25-28 prósent eftir þrjú til fimm ár.
Stærsta breytingin í þessari vegferð er að lækka hlutafé um 250 milljónir króna á nafnvirði á genginu 7,2 krónur á hlut. Það þýðir að virði viðskiptanna yrði 1,8 milljarður króna. Gengið er undir markaðsgengi Kviku banka, sem er skráð á First North markaðinn. Gengi bréfa bankans þar í dag er 7,45 krónur á hlut.
Í áætluninni kemur fram að aðgerðin sé háð samþykki Fjármálaeftirlitsins og hluthafafundar, sem haldinn verður 27. júní næstkomandi. Þar segir einnig að boðist verði til þess að kaupa bréf af minni hluthöfum í VÍS í framtíðinni.