Rússneski herinn hefur lokað fyrir umferð í Barentshafinu vegna óvæntrar hernaðaræfingar, án þess að hafa látið norsk yfirvöld vita. Þetta kemur fram í frétt Independent Barents Observer.
Í frétt NRK um málið segir að æfing Rússa sé sú stærsta í tíu ár, en í henni taka 36 herskip og um 20 flugvélar. Auk þess verða meira ein 150 eldflaugar meðfram strönd Kólaskaga. Æfingin hefur verið skilgreind sem svokölluð neyðaræfing, en samkvæmt varnarmálaráðuneyti Rússlands er markmið hennar að undirbúa sig gegn „viðamikilli óvinaárás“.
Talsmaður höfuðstöðva norska hersins, Brynjar Stordal segir að Norðmönnum hafi ekki verið greint frá æfingunni. Hún sé framkvæmd innan heimilda rússneska hersins þar sem hún eigi sér stað innan lögsögu þeirra, en norski herinn fylgist að sjálfsögðu grannt með þeim.
„Það er okkar starf að hafa góða yfirsýn yfir allar athafnir sem fara fram nálægt landinu okkar. Við fylgjumst með hvers kyns hreyfingum á hverjum degi og gerum það einnig í þessu tilviki,“ segir Ivar Moen, höfuðsmaður í norska hernum í samtali við NRK.