Útsendingar verða frá heimsmeistaramótinu bæði í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi. Leikir íslenska landsliðsins verða sýndir í Hljómskálagarðinum, sem eðli málsins samkvæmt rúmar fleiri en Ingólfstorg, en þar verða allir leikir mótsins sýndir.
Skemmtileg stemning myndaðist á Arnarhóli fyrir tveimur árum þegar landsliðskapparnir kepptu á Evrópumótinu en til þess að geta tekið á móti þessum fjölda fólks var talið heppilegra að vera í Hljómskálagarðinum með tilliti til stærðar og umhverfis, aðkomu og aðgengismála.
Landsbankinn, ásamt öðrum styrktaraðilum knattspyrnulandsliða Íslands, Reykjavíkurborg og KSÍ standa að HM torgunum á Ingólfstorgi og Hljómskálagarðinum. Þá mun RÚV verða með útsendingar frá Hljómskálagarðinum og gert er ráð fyrir leiktækjum fyrir börn og veitingaaðstöðu meðan á útsendingum stendur.
Hvetja til huggulegrar stundar við Vesturbæjarlaugina
Að auki verður hægt að horfa á leiki Íslands, þar á meðal leikinn gegn Argentínu á morgun, við Vesturbæjarlaug í boði Brauð&co, Hagavagnsins, Kaffihúss Vesturbæjar og Melabúðarinnar. Í tilkynningu segir að verið sé að standa fyrir skemmtilegu „Vesturbæjar-áhorfi“ á leiki íslenska liðsins.
Gísli Marteinn Baldursson einn eigenda kaffihússins segist hvetja alla Vesturbæinga til að koma þangað og horfa saman á leikina og hvetja landsliðið til dáða. Hann hvetur einnig fólk til að koma með teppi og jafnvel tjaldstóla með sér til að hafa það huggulegt. „Við sjáum þetta sem kjörið tækifæri fyrir hverfið og fjölskyldur til að gera eitthvað skemmtilegt saman og skapa góðan hverfisanda. Nú er bara að hugsa hlýlega til veðurguðanna og fá smá hlé á rigningunni og þá getum við átt frábæra og eftirminnilega upplifun í hverfinu okkar.“
Við og @hagavagninn og Brauð&co og Melabúðin ætlum að vera með vesturbæjaráhorf á leiki Íslands á HM. Köllum það #melavöllurinn og hann verður við Vesturbæjarlaug, hjá Hagavagninum. Risaskjár og hverfisstemning. Hlökkum til að sjá ykkur á laugardaginn! #vikingclap
— Kaffihús Vesturbæjar (@kaffivest) June 12, 2018
Allir alls staðar að horfa saman á HM
Sýnt verður frá leikjum íslenska liðsins á risaskjá neðst í Gilinu á Akureyri. Settur verður upp 15 fermetra risaskjár neðst í gilinu, rétt eins og þegar Akureyrarvaka er. Þar geta Akureyringar safnast saman og horft á leiki Íslands. Í norðlenska blaðinu Vikudagur var greint frá því að á leikdögum yrði mikið um dýrðir bæði fyrir og eftir leiki liðsins, sem og í hálfleik.
Hótel Laugar hyggst sýna alla leiki frá mótinu á risaskjá, en sýningin er innandyra.
Í raun má gera ráð fyrir að hringinn í kringum landið muni Íslendingar hópast við skjái hvar sem þeir eru fyrir eða verða settir upp! Inni í stofu, á öldurhúsum, úti á fjöldasamkomum eða í taugaáfalli í fósturstellingunni í einrúmi uppi í rúmi.
Getur brugðið til beggja vona með veðrið
Veðurspáin fyrir morgundaginn, þegar sýnt verður utandyra á fyrrgreindum stöðum frá leik landsliðs okkar við Argentínu rétt upp úr hádegi, er misjöfn.
Eins og sjá má er víða spáð rigningu á morgun, mismikilli þó. Spáin á höfuðborgarsvæðinu er ekkert stórkostleg, en Veðurstofan spáir nokkuð mikilli úrkomu. Þess skal þó getið að frændur okkar Norðmenn spá minni úrkomu á leiktíma á vefsíðunni yr.no. Spáð er einhverri rigningu fyrir norðan á Akureyri svo þeir sem ætla út að horfa þar, rétt eins og fólkið á höfuðborgarsvæðinu, ætti að vera í pollagallanum líkt og þeir bræður Jón og Friðrik Dór Jónssynir.