Seðlabanki Evrópu hefur kosið um endalok skuldabréfakaupa í desember á þessu ári. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem seðlabankastjórinn Mario Draghi hélt í dag, en Guardian greinir frá.
Á síðustu þremur árum hefur seðlabankinn staðið í umfangsmiklum skuldabréfakaupum til þess að ýta upp nafnvöxtum á Evrusvæðinu og bjarga því frá svokallaðri lausafjárgildru (e. liquidity trap). Þessi aðgerð er nefnd magnbundin íhlutun (e. quantitative easing) en vegna hennar hefur bankinn keypt skuldabréf að andvirði 2,6 trilljón evra, þrátt fyrir að upphaflega hafi staðið til að kaupa fyrir “einungis” eina trilljón.
Beðið hefur verið eftir endalokum aðgerðarinnar í nokkurn tíma þar sem óttast var vaxtahækkunar og veikingar evrunnar. Draghi lýsti því hins vegar yfir að vextir á evrusvæðinu myndu haldast lágir næstu tvö árin.
Gríðarleg gengisveiking fylgdi í kjölfar ákvörðunarinnar, en verðgildi evrunnar lækkaði um nær eitt prósent gagnvart Bandaríkjadal í kjölfar blaðamannafundarins. Til viðbótar við áðurnefnda ákvörðun má búast við að gengisveikingin sé einnig vegna uppfærðrar hagvaxtar-og verðbólguspár seðlabankans á fundinum. Búist er við hærri verðbólgu og lægri hagvexti en áður var spáð, en samkvæmt Draghi er það vegna rísandi olíuverðs og yfirvofandi tollastríðum milli Bandaríkjanna og annara landa.