Utanríkisráðherrar Íslands, Noregs og Liechtenstein ákváðu í dag að hefja sameiginlega kortlagningu á hagsmunum sínum vegna útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu. Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins í dag.
Guðlaugur Þór Þórðarsson utanríkisráðherra Íslands fundaði með Ine Marie Eriksen Søreide, utanríkisráðherra Noregs, og Aureliu Frick, utanríkisráðherra Liechtenstein í Osló í morgun.
„Við höfum lagt á það áherslu að EFTA-ríkin þrjú sem eiga aðild að EES móti sér sjálfstæða stefnu gagnvart Bretlandi og ESB þar sem hagsmunir ríkjanna þriggja væru í fyrirúmi. Niðurstaða fundarins í dag er stór áfangi í þeirri vinnu,“ sagði Guðlaugur Þór að fundinum loknum.
Guðlaugur hefur áður mælt með samstarfi EES-ríkja gagnvart útgöngu Bretlands úr Evrópusambandinu, en hann stýrði fundi EES-ráðsins með Michel Barnier, aðalsamningamanni Evrópusambandsins fyrir nokkrum vikum. Aurelia Frick og Ine Marie Eriksen voru einnig viðstödd á þeim fundi, en Guðlaugur lagði þar einnig áherslu á hve brýnt væri að ná fram farsælli niðurstöðu út frá Brexit.