Paul Manafort, fyrrum kosningastjóri forsetaframboðs Donald Trump Bandaríkjaforseta, hefur verið settur í varðhald fram að réttarhöldum. Þetta kemur fram á vef New York Times.
Samkvæmt frétt Times ákvað alríkisdómari að skipa Manafort í varðhald í kjölfar ásakana frá embætti sérstaks saksóknara í Bandaríkjunum, Robert Mueller. Lögfræðingar á vegum Mueller héldu því fram að Manafort hafi reynt að hafa áhrif á framgang máls síns með því að hafa samband tvö vitni, en málið snýr að hugsanlegum lögbrotum kosningaframboðsins.
Samskipti Manafort við vitni málsins sneru að sambandi hans við Viktor F. Yanukovych, sem Manafort reyndi að koma á framfæri sem traustverðum stjórnmálamanni gagnvart Vesturlöndum árið 2014. Manafort á að hafa reynt að hylma yfir þátttöku sinni í málinu fyrr á þessu ári, en ríkisstjórn Bandaríkjanna viðurkennir nú að aðgerðirnar hafi átt sér stað með honum í fararbroddi.
Manafort er ákærður fyrir að greina ekki rétt frá aðgerðum sínum við Yanukovych til dómsmálaráðuneytis Bandaríkjanna, auk þess að hafa logið að starfsmönnum ráðuneytisins sem yfirheyrðu hann. Hann er líka sakaður um peningaþvætti á þeim 30 milljónum Bandaríkjadala sem hann fékk fyrir umræddar aðgerðir.