Íslenska karlalandsliðið spilar í dag sinn fyrsta leik í úrslitakeppni HM í sögunni, þegar liðið mætir stórliði Argentínu, sem er með stjörnum prýtt lið og sjálfan Lionel Messi í broddi fylkingar, í treyju númer 10.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari Íslands, sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn í gær, að undirbúningur Íslands hefði gengið vel. „Við erum búnir að vera lengi að undirbúa okkur og það er fullt af fólki í kringum mig sem veit út í hvað við erum að fara. Undirbúningurinn er það góður að við erum ekki að redda neinu á síðustu stundu eins og hefur oft farið í taugarnar á þjálfaranum eða þeim sem er að stjórna hlutum. Þetta er allt mjög vel skipulagt,“ sagði Heimir, en Fótbolti.net greindi frá blaðamannafundinum í smáatriðum.
Gríðarlegur áhugi erlendra fjölmiðla er á leiknum. Meðal annars vegna þess að ein mest stjarna fótboltans, Messi, er að hefja leik, en einnig vegna þess að Ísland er fámennasta landið í sögunni til að ná þeim árangri að koma landsliði á HM.
Official @Argentina XI vs #Iceland pic.twitter.com/0JXOhZf8j2
— Argentina Football (@ARG_soccernews) June 16, 2018
Hátt í þúsund erlendir fjölmiðlamenn hafa boðað komu sín á leikinn. Hér á landi er spennan vegna leiksins rafmögnuð.
Hann verður sýndur á risaskjám víða um land og má búast við miklum mannfjölda, ekki síst í Hljómskálagarðinum og á Ingólfstorgi.
Byrjunarlið Íslands hefur ekki verið gefið út enn, og skýrist það skömmu fyrir leik. Jorge Sampaoli, þjálfari Argentínu, tilkynnti um byrjunarlið Argentínu.
Markvörður: Willy Caballero (Chelsea)
Hægri bakvörður: Eduardo Salvio (Benfica)
Vinstri Bakvörður: Nicolas Tagliafico (Ajax)
Miðverðir: Nicolas Otamendi (Man.City), Marcos Rojo (Man.Utd)
Miðjumenn: Javier Mascherano (Hebei China Fortune), Lucas Biglia (AC Milan), Angel Di María (PSG), Maximiliano Meza (Inderpendiente).
„Tía“: Lionel Messi (Barcelona)
Framherji: Sergio Aguero (Man.City).
Leikurinn hefst klukkan 13:00 að íslenskum tíma og fer fram á Spartak vellinum í Moskvu.
Þetta er í fyrsta sinn sem Ísland mætir Argentínu, en Argentínumenn hafa orðið heimsmeistarar tvisvar, 1978 og 1986. Argentína spilaði til úrslita árið 2014 gegn Þjóðverjum, en tapaði eftir framlengdan leik.