Fjórir þingmenn Samfylkingarinnar og einn þingmaður Viðreisnar hvöttu íslensk stjórnvöld til að fordæma stefnu Bandaríkjastjórnar í innflytjendamálum á Facebook í dag. Þá líkir Ágúst Ólafur Ágústsson þróunina í Bandaríkjunum minna á sjónvarpsþáttaröðina Handmaid‘s Tale, þar sem ofbeldi er réttlætt með vísun í Biblíuna.
Bandaríkjastjórn hefur sætt mikilli gagnrýni undanfarna daga vegna harkalegrar stefnu þeirra í innflytjendamálum, en þar hafa yfir 2.000 börn efnahagslegra flóttamanna við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna verið aðskilin frá foreldrum sínum og sum þeirra geymd í búrum. Spáð er því að ríkisstjórnin muni geyma upp að 30.000 börn undir lok sumarsins. Mbl.isfjallaði einnig um málið fyrr í dag.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, kallaði aðgerð Bandaríkjastjórnar ógeðslega í stöðuuppfærslu á Facebooksíðu sinni í gær. Hann kallar stefnu stjórnvalda þar í landi ómennska og segir að það þýði ekki fyrir Bandaríkjamenn að skýla sér bak við vanstilltan og óútreiknanlegan forseta. „Íslensk stjórnvöld eiga að fordæma þennan viðbjóð gamallar vinaþjóðar okkar,“ bætir formaðurinn við að lokum.
Þingmennirnir Oddný G. Harðardóttir, Helga Vala Helgadóttir og Ágúst Ólafur Ágústsson taka í sama streng og Logi, en allir þeirra hvetja íslensk stjórnvöld til fordæmingar á stefnunni. Varaformaður Viðreisnar, Þorsteinn Víglundsson, gagnrýndi einnig stefnuna í stöðuuppfærslu á facebook eftir hádegi í dag og sagði Bandaríki Donalds Trump vera komin langt frá þeim hugsjónum sem ritaðar voru í sjálfstæðisyfirlýsingu sinni.
Nú er nóg komið, og í raun fyrir löngu. Þessi forseti Bandaríkjanna stendur fyrir ótrúlegri mannvonsku þegar hann...
Posted by Ágúst Ólafur Ágústsson on Tuesday, June 19, 2018
Ágúst Ólafur bætir í og segir þróunina sem á sér stað í Bandaríkjunum minna um margt á sjónvarpsþáttaröðina Handmaid‘s Tale, þar sem vísun í ofbeldi er réttlætt með vísun í Biblíuna. Íslenskir ráðamenn yrðu að vakna til lífsins og „í raun öskra“ gegn þessum aðgerðum.
Kjarninn hefur áður fjallað um Handmaid‘s Tale, sem er þáttaröð byggð á dystópískri sögu Margaretar Atwood. Í þáttunum er sagt frá ríki sem stjórnað er af bókstafstrúuðum kristum karlmönnum og borgaralegt frelsi ekkert.