Meirihluti stjórnar HB Granda hefur valið núverandi stjórnarformann Guðmund Kristjánsson sem forstjóra útgerðarfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Kauphallarinnar fyrr í dag.
Í tilkynningunni segir að meirihluti stjórnar félagsins hafi tekið ákvörðunina á fundi í dag samhliða ákvörðun um gerð starfslokasamnings fyrir Vilhjálm Vilhjálmsson, fráfarandi forstjóra félagsins. Í kjölfarið skipti stjórn með sér verkum á ný og var Magnús Gústafsson kjörinn nýr stjórnarformaður.
Guðmundur Kristjánsson er fyrrverandi forstjóri útgerðarfélagsins Brims, en eins og Kjarninn hefur greint frá keypti hann 34,1% eignarhlut Kristjáns Loftssonar og Halldórs Teitssonar í HB Granda. Kaupin námu tæplega 21,7 milljörðum króna.
Auglýsing
Guðmundur bauð sig svo fram í stjórn félagsins, en var valinn stjórnarformaður á aðalfundi HB Granda þann 4. maí síðastliðinn.