Króatar lögðu Argentínumenn í D-riðli HM í Rússlandi, og tryggðu þar með sæti sitt í 16 liða úrslitum. Leikurinn endaði 3-0. Króatar hafa unnið sína leiki, gegn Nígeríu og Argentínu, og hafa ekki ennþá fengið á sig mark. Liðsheild þeirra virkar heilsteypt og sterk, en Argentínumenn eru heillum horfnir.
Caballero, markvörður Argentínu, gerði sekan um ótrúleg mistök í fyrsta marki Króata sem Rebic skoraði í byrjun seinni hálfleiks. Hann reyndi þá að sparka boltann yfir leikmann Króata en gaf þess í stað beint á hann, og átti Rebic ekki í vandræðum með að koma boltanum í markið.
Eftir það opnaðist leikurinn meira, Króatar lágu til baka og beittu skyndisóknum sem Argentína átt í miklum vandræðum með að verjast.
Modric, hinn frábæri leikstjórnandi og fyrirliði Króata, skoraði frábært mark, með skoti fyrir utan teig og annar frábær miðjumaður, Rakitic, skoraði síðan þriðja markið.
Staðan í riðlinum núna er sú að Króatar eru í efsta sæti með 6 stig, Ísland í öðru með 1 stig eins og Argentínumenn, en markahlutfall Íslands er betra eftir tap Argentínu gegn Króatíu.
Nígería er neðst með ekkert stig. Ef Ísland vinnur Nígeríu á morgun, þá er Ísland komið með 4 stig, en á Króata eftir í síðustu umferð. Þrátt fyrir afleita tvo fyrstu leiki hjá Argentínu, þá gæti sigur á Nígeríu samt tryggt sæti í 16 liða úrslitum. Það fer eftir því, hvernig leikur Íslands og Nígeríu fer á morgun.
Gríðarleg spennan er því ennþá í riðlinum.