Rannveig Sigurðardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands, hefur verið skipuð í embætti aðstoðarseðlabankastjóra af Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Þetta kemur fram á heimasíðu forsætisráðuneytisins, en Markaðurinn í Fréttablaðinu greindi fyrst frá.
Kjarninn hefur áður fjallað um umsókn til aðstoðarseðlabankastjóra en alls sóttu tólf manns um stöðuna þegar hún var auglýst í febrúar á þessu ári.
Meðal þeirra voru fimm umsækjendur taldir hæfastir, en auk Rannveigar voru þau dr. Daníel Svavarsson, forstöðumaður hagfræðideildar Landsbanka Íslands, Guðrún Johnsen, lektor og doktorsnemi í hagfræði, Jón Þór Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasamskipta við SÍ og Þorsteinn Þorgeirsson, ráðgjafi seðlabankastjóra talin með í þeim flokki
Rannveig útskrifaðist sem hagfræðingur frá Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1990, en hún hefur unnið sem hagfræðingur hjá Seðlabankanum síðan árið 2002. Rannveig verður ráðin til fimm ára, en hún hefur störf þann fyrsta júlí næstkomandi.