Hlutfall nýnema í framhaldsskólum á Íslandi sem hafa útskrifast hækkaði úr 43% árið 2000 í 52% árið 2012. Dreifing brautskráninga er einnig ójöfn eftir félagslegum bakgrunni, en líkur innflytjenda sem skrá sig í framhaldsskóla eru helmingi minni en líkur íslenskra barna. Þetta kemur fram í nýbirtri tilkynningu Hagstofu Íslands í dag.
Í tilkynningunni segir að um 52% þeirra nýnema sem skráðu sig í framhaldsskóla árið 2012 hafi brautskráðst úr námi á því stigi í ár, fjórum árum síðar. Þá höfðu rúm 26% hætt námi eða tekið sér tímabundið hlé, en tæp 22% voru enn í námi án þess að hafa brautskráðst.
Brautskráningarhlutfallið, sem mælir hlutfall nýnema sem útskrifast, hefur aukist hægt á síðustu árum, en til samanburðar höfðu rúmlega 43% nýnema haustsins 2000 útskrifast. Brautskráningarhlutfall innflytjenda sker sig úr, en í ár höfðu aðeins 29% þeirra sem hófu framhaldsskólanám árið 2012 útskrifast. Til samanburðar var brautskráningarhlutfall þeirra sem fæddir voru erlendis og höfðu íslenskan bakgrunn um 56%.
Ná ekki viðmiðum menntamálaráðuneytisins
Þar sem tölurnar ná til nýnema árið 2012 eru áhrif styttingar náms til stúdentsprófs ekki að fullu komin fram í þeim tölum sem samantekt Hagstofu nær til. En samkvæmt Hvítbók menntamálaráðuneytisins sem kom út árið 2014 var því spáð að brautskráningarhlutfall í ár yrði komið upp í 60%, hefði tillögur hennar gengið eftir.