Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir það alrangt að hún hafi sem borgarfulltrúi, og samkvæmt minnisblaði skrifstofustjóra borgarstjórnar, brotið siðareglur gegn starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Mörtu sem hún sendi frá sér í dag.
„Þetta á ég að hafa gert úr ræðustóli á fundi borgarstjórnar þriðjudaginn 19.6. sl., með ásökunum í þeirra garð um trúnaðarbrest og upplýsingaleka,“ segir hún í yfirlýsingunni.
Eins og fram kom í fréttum í gær og fyrradag þá telur Helga Björk Laxdal skrifstofustjóri borgarstjórnar að ákvæði um réttindi og skyldur kjörinna fulltrúa, sem og siðareglur þeirra, hafi verið brotnar þegar Marta sakaði starfsfólk Reykjavíkurborgar um trúnaðarbrest og brot á starfsskyldum. Þetta kom fram í minnisblaði um framlagningu framboðslista við kosningar nefnda, ráða og stjórna á vegum borgarinnar
Marta segir jafnframt í yfirlýsingunni að með því að hlusta á upptökur af fundinum, sem hægt er að nálgast á vef Reykjavíkurborgar, geti hver og einn fullvissað sig um þá staðreynd að hún hvorki ásakaði, né nafngreindi nokkurn starfsmann Reykjavíkurborgar í þessum efnum.
„Af gefnu tilefni beindi ég hins vegar fyrirspurn til kjörins fulltrúa á fundinum, Lífar Magneudóttur, um það hvar hún hefði fengið upplýsingar um tilnefningar pólitískra mótherja í ráð og nefndir og hvers vegna hún væri að flíka slíkum upplýsingum á fundinum, áður en þær yrðu opinberar með kjöri. Fátt varð um svör en Líf nefndi vettvang á borð við kaffihús og ganga Ráðhússins. Af þessum tjáskiptum spunnust nokkrar umræður meðal borgarfulltrúa, en þær breyta í engu þeirri staðreynd að ég ásakaði aldrei starfsmenn Reykjavíkurborgar um eitt né neitt,“ segir hún.
Marta telur minnisblað skrifstofustjóra borgarstjórnar fáheyrt frumhlaup háttsetts embættismanns sem eigi umfram allt að gæta hlutleysis og ætti ekki að skipta sér af pólitískum umræðum kjörinna fulltrúa. Borgarstjórnarfundir séu ekki mælskunámskeið þar sem skrifstofustjóri borgarstjórnar segir borgarfulltrúum fyrir verkum.
„Þó skrifstofustjórinn telji að starfsheiðri sínum vegið með einhverjum ummælum kjörinna fulltrúa, hefur hún ekkert umboð né aðrar lagaheimildir til að setja sig á stall ákæru- og úrskurðarvalds yfir kjörnum fulltrúum, með pólitisku „minnisblaði“ sem er ætlað að gera lítið úr tilteknum kjörnum fulltrúum og heldur í þokkabót fram alvarlegum rangfærslum. Þar er því t.d. ranglega haldið fram að upplýsingar um tilnefningar í ráð og nefndir hafi legið fyrir á vef borgarinnar í marga klukkutíma fyrir fundinn. Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu borgarstjórnar fóru upplýsingar um umhverfis- og heilbrigðisráð ekki á vef Reykjavíkurborgar fyrr en eftir að borgarstjórnarfundurinn hófst.
Það frumhlaup skrifstofustjórans að semja „minnisblað“ og fara þess á leit að það yrði tekið fyrir í forsætisnefnd Reykjavíkurborgar, hefur nú haft þær afleiðingar í för með sér að málinu var frestað á síðasta fundi nefndarinnar, mánudaginn 25.6. sl., en sama kvöld var þetta óafgreidda trúnaðarmál nefndarinnar orðið að ærumeiðandi „frétt“ um mig í fjölmiðli, þess efnis að ég hefði brotið trúnað gagnvart starfsmönnum Reykjavíkurborgar. Og síðan gekk leppurinn í öðrum fjölmiðlum daginn eftir,“ segir hún.
Að lokum segir hún þetta vera ólíðandi vinnubrögð og síst til þess fallin að auka traust milli kjörinna fulltrúa og embættismanna.